Grein þýdd og umorðuð frá www.reuters.com
Samkvæmt danskri rannsókn eru þeir karlmenn sem drekka 1 líter eða meira af kóladrykkjum á dag með 30% lægra sæðismagn en þeir karlmenn sem ekki drekka kóladrykki. En þó að í flestum tilvika væri sæðismagn álitið innan eðlilegra marka samkvæmt World Health Organization, þá gefur það auga leið að minna sæðismagn setur karlmenn í áhættuhóp fyrir ófrjósemi.
Þá tóku rannsóknaraðilar fram að þeir karlmenn sem drukku mikið af kóladrykkjum væru líka frábrugðnir á margan annan hátt er varðar lífsstíl, þ.e.a.s. lífstílinn var almennt slæmur. Þeir borðuðu almennt meira af skyndibita og minna af ávöxtum og grænmeti.
Í rannsókninni tóku þátt rúmlega 2500 danskir karlmenn. Það sem var frábrugðið við rannsóknina var að ekki voru einungis rannsakaðir karlmenn sem fyrir voru greindir með ófrjósemi. Þeir karlmenn sem drukku hvað mest af kóladrykkjum voru með 40 milljónir sæðisfruma á hvern millilítra. Á meðan þeir karlmenn sem ekki drukku kóladrykki höfðu nálægt 60 milljónir sæðisfruma á hvern millilíter.
Þegar skoðað var koffín úr öðrum drykkjum s.s. kaffi og tei, var minna sæðismagn ekki eins áberandi. Þó ekki væri talið að það væri koffínið sem hefðu þessi neikvæðu áhrif, þá var ekki hægt að útiloka það, þá sérstaklega hvort væri einhver þröskuldur er varðar koffín inntöku og áhrif á sæði.
Niðurstaðan var sú að líklega er ekki bara kóladrykkjunum einum og sér um að kenna, heldur lífsstílnum almennt.
Heimild
Áhrif næringar og lífsstíls á frjósemi geta verið mikil, og er yfirleitt margt sem þarf að skoða og breyta. Eins og fram kemur í greininni getur slæmur lífstíll almennt aukið líkur á ófrjósemi og er þá oft um samspil ýmissa þátta að ræða. Sem dæmi má nefna að ef neytt er mikilla gosdrykkja, er oft líka mikil neysla annara slæmra matavara til staðar. Þá er ekki ólíklegt aðrir slæmir lífstílsvanar spili inn í. Annað dæmi um drykk eða fæðu sem getur haft veruleg áhrif á sæði er t.d. sojavörur, en rannsókn hefur sýnt fram á sojaneysla hefur neikvæð áhrif á fjölda sæðisfruma. Miklar líkur eru að þeir sem borða mikið unnar matvörur séu að borða umtalsvert af soja þar sem það er svo algengt fylliefni í unnum matvörum.
Þegar kemur að greiningu á orsökum ófrjósemi er spjótunum oft fyrst beint að konunum. Þegar ekkert finnst að er líklega gefin greiningin óútskýranleg ófrjósemi. Hinsvegar sýna æ fleiri rannsóknir og klínísk reynsla að sæðisrannsókn er eitt hið fyrsta sem skal framkvæma. Hjá Artmedica á Íslandi eru framkvæmdar sæðisrannsóknir. Þá er það ekki bara magnið sem þarf að athuga heldur líkahreyfanleiki og gæði, og hvort séu gallar á sæði. En þó eitthvað finnist að hjá konunni s.s. legslímuflakk, blöðrur á eggjastokkum svo fleira sé nefnt, þá er samt mikilvægt að karlmaður fari í sæðisrannsókn til að vita magn og gæði sæðis. Það þarf jú tvo til. Ef par er að reyna að geta barn er mikilvægt að skoða og breyta mörgum þáttum lífsstíls þeirra en ekki einungis t.d. kóladrykkju. Það er vegna þess að margt smátt getur gert eitt stórt.
Þar sem að fjölda rannsókna hafa nú sýnt fram á að almennt vestrænt matarræði í dag er orsökin fyrir hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki, offitu, krabbameini o.s.frv. Þá gefur auga leið að æxlunarkerfið er ekki undanskilið er kemur að áhrifum frá matarræði og lífsstíl. Líkaminn er ein heild, þar sem ein starfsemi hefur áhrif á aðra. Oft er verið að leita að eina sökudólgnum fyrir heilsufarsvandamálinu, og þá í þessu tilviki ófrjósemi. Því miður er það ekki alltaf rétta leiðin. Heldur er það heildin sem þarf að skoða. Þá ég við að þegar kemur að heilsu þarf yfirleitt að laga marga þætti til að sjá árangur, og fylgja því eftir í lengri tíma. Yfirleitt þarf að fylgja eftir leiðbeiningum er varðar breytt matarræði og lífstíl í a.m.k. 4-6 mánuði til að bæta frjósemi.
Í sumum tilvikum duga til litlar breytingar til að kraftaverkin gerist og getnaður verði. Hinsvegar lít ég þannig á málið að af hverju ekki að bæta heilsuna svo um munar til að auka líkurnar á að eignast heilbrigðan einstakling. Það er ekki sjálfgefið í dag.