Mikilvægi sótthita

Grein þýdd frá drtenpenny.com

Hiti í börnum getur valdið ótta, en óttinn byggist aðallega á misskilningi.

Hiti, eða sótthiti, er líkamshiti yfir „eðlilegum líkamshitamörkum” en skilgreiningin á „eðlilegum” getur verið mismunandi hjá fólki. Líkamshiti getur einnig verið mismunandi eftir því hvað er verið að aðhafast og einnig á mismunandi tímum dagsins.

Læknabókum ber ekki saman um hæsta „eðlilega“ líkamshita. Hann getur verið á bilinu 37 til 38°C (98,6 til 100,4°F), en það er almennt viðurkennt að um sótthita sé að ræða ef líkamshiti snemma að morgni er hærri en 37,22°C (99°F) eða hærri en 37,78 (100°F) hvenær sem er dagsins. Heimild: Harvard Medical School’s Intelihealth. http://www. intelihealth.com

Það eru margar ástæður fyrir sótthita en algengast er að tengja hann við mismunandi vírusa, bakteríur og sníkla sem orsaka sýkingu í efri öndunarvegi, lungnabólgu, niðurgang og þvagfærasýkingar.

Þegar smitandi örverur ráðast á líkamann er sótthitinn það einkenni sem vekur athygli. Þrátt fyrir almenna vitneskju er samt sem áður lítið vitað um orsök sótthita. Þegar örvera kemst inn í líkamann, er álitið að líkaminn virkji ónæmisviðbrögð sín, meðal annars með losun á flóknum frumuboðefnum með álíka flókin nöfn; cytokine, tumor necrosis factor alpha (TNFα), interleukin (IL-1b) og interleukin 6 (IL-6). Þessi efni flytja boð til þess hluta heilans sem nefnist undirstúka um að hækka líkamshitann, sem aftur leiðir af sér kuldahroll og skjálfta til þess að örva efnaskiptin. Hitatap er lágmarkað með því að draga úr blóðflæði til húðarinnar, sem verður því föl. Þeir sem þjást af sótthita missa venjulega matarlystina, eru slappir, með verki og þreyttir.

Gagnstætt því að vera tákn um að það þurfi hitalækkandi lyf, er hærri líkamshiti merki um að ónæmiskerfið sé að vinna eins og það best getur. Fjöldi hvítra blóðkorna eykst og boðefni flæða út í blóðrásina í þeim tilgangi að ráða með hraði niðurlögum innrásarsýkla. Sótthiti minnkar möguleika baktería og vírusa til að fjölga sér og skapar óvinveitt umhverfi fyrir innrásarörverurnar. Hitinn gerir þeim ómögulegt að fjölga sér og þær deyja út. Sótthitinn er því mikilvægt hjálpartæki í baráttunni gegn örverum.

Sótthitahræðsla

Hiti er áreiðanlega ein algengasta ástæða þess að fólk leitar til læknis með börnin sín. Í blaði sem Barton Schmitt, MD gaf út árið 1980 birtust niðurstöður könnunar þar sem 81 foreldri var spurt um skilning þeirra á sótthita. Allir foreldrarnir voru óþarflega áhyggjufullir yfir lágum sótthita, eða 38,9°C (102°F) og lægri. Flestir foreldranna (52 prósent ) trúðu því að sótthiti um 40°C (104°F) eða lægri gæti haft taugafræðilegar aukaverkanir í för með sér. Þess vegna brugðust nær allir foreldrarnir við sótthitanum og leituðust við að lækka hann, 85 prósent gáfu hitalækkandi lyf og 68 prósent kældu barn sem var með lægri sótthita en 39,5°C (102°F) með svölu vatni. Schmitt kallaði þessar óþarfa áhyggjur sótthitahræðslu. Heimild: Am JDis Child. 1980 Feb;134(2):176-81. “Fever phobia: misconceptions of parents about fevers.”

Árið 2001 var gerð framhaldsrannsókn til þess að kanna hvort sótthitahræðslan hefði eitthvað breyst. Rannsóknin miðaði að því að athuga viðhorf foreldra til sótthita og bera saman við könnunina sem Schmitt gerði árið 1980. Niðurstaðan var mun verri en sótthitahræðslan sem Schmitt lýsti 20 árum fyrr.

56 prósent þeirra 340 forsjáraðila sem voru spurðir, sögðust vera “mjög áhyggjufullir” yfir þeim skaða sem sótthiti gæti hugsanlega valdið börnum þeirra. Samanburður sýndi að fleiri foreldrar voru hræddir við hitakrampa sem hugsanlegan skaða af völdum sótthita. Þeir vöktu börn sín og mældu hitann oftar þegar þau voru veik og gáfu hitalækkandi lyf eða böðuðu þau oftar með svölu vatni í þeim tilgangi að ná hitanum niður í eðlilegt ástand. 44 prósent töldu 38,9°C (102°F) vera háan hita, og sjö prósent töldu að sótthiti sem færi hækkandi gæti orðið stjórnlaus og orðið hærri en 43,4°C (110°F) ef ekkert væri að gert. Nærri allir forsjáraðilarnir (91 prósent) töldu jafnvel að lágur sótthiti gæti verið skaðlegur. Skaðlegustu áhrifin töldu 21 prósent vera heilaskaða og 14 prósent dauða.

Það var sláandi að 25 prósent foreldra kváðust gefa hitalækkandi lyf við sótthita lægri en 37,8°C (100°F) og heil 85 prósent kváðust myndu vekja barnið til að gefa hitalækkandi lyf. Könnunin sýndi að 14 prósent notuðu paracetamól (acetaminophen) og 44 prósent íbúprófen. Hins vegar voru bæði lyfin gefin með of stuttu millibili. Þegar kom að kælandi böðun á börnunum kom í ljós að 73 prósent struku börnunum með klút eða svampi vættum í köldu vatni í þeim tilgangi að lækka sótthita. 24 prósent gerðu það í tilfellum þar sem hiti var lægri en 37,8°C (100°F) og nærri 20 prósent notuðu alkóhól í kalt bað. Alkóhól var notað til að auka kælinguna þar sem það gufar hratt upp af húðinni. Uppsog á alkóhóli fer einnig fram í gegnum húð og gæti hugsanlega leitt til eitrunar, sérstaklega hjá mjög ungum börnum.

Heimild: Pediatrics. Vol. 107 No. 6 June 2001, pp. 1241-1246. “Fever Phobia Revisited: Have Parental Misconceptions About Fever Changed in 20 Years?”

Rannsóknin sýndi fram á að nær fjórðungur aðspurðra notaði paracetamól (acetaminophen) og íbúprófen til skiptis til að lækka sótthita barna sinna. Þetta er almennt gert þrátt fyrir skort á sönnunum um árangur eða hvort það sé öruggt. Niðurstöður rannsóknar Mayoral og félaga frá því í maí árið 2000 sýndu að 50 prósent barnalækna sem talað var við sögðust ráðleggja foreldrum að nota paracetamól (acetaminophen) og íbúprófen til skiptis samkvæmt mismunandi leiðum þrátt fyrir að engar sannanir styddu þessar ráðleggingar.

Heimild: Pediatrics. Vol. 105 No. 5. May 2000, pp. 1009-1012. “Alternating Antipyretics: Is This an Alternative?”

Það er áhyggjuefni, en kom ekki á óvart, að 46 prósent forsjáraðila sem brugðust harkalega við minniháttar hitahækkun, nefndu lækna sína sem helstu heimildarmenn varðandi upplýsingar um sótthita. Þegar aflað er upplýsinga um veikindi barnsins eru barnalæknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn oft fljótir að spyrja um sótthita, bæði hvort og þá hversu mikið hann hafi hækkað. Í lok læknisheimsóknarinnar fá foreldrar oft fyrirmæli um að koma aftur, eða hringja, ef sótthiti barnsins hækkar upp fyrir ákveðin mörk eða er viðvarandi. Með því að leggja svona mikla áherslu á sótthita barnsins, án þess að útskýra hvenær sótthiti sé áhyggjuefni eða hvenær sótthiti er af hinu góða, aukast áhyggjur foreldranna og þar með líkur á varanlegri sótthitahræðslu.

Forsjáraðilar verða að skilja hversu mikilvægur sótthiti er í bataferlinu. Því miður er það líklegast heilbrigðiskerfið sem elur á sótthitahræðslu. Þegar læknar segja foreldrum að gefa hitalækkandi lyf ef hitinn hækki upp fyrir ákveðin mörk, til dæmis 38,33°C (101°F), álíta margir foreldrar ósjálfrátt að sótthiti sé hættulegur við þau mörk. Í raun miðar hitalækkandi lyfjagjöf að því að bæta líðan sjúklingsins á meðan líkaminn berst við sýkinguna. Ef læknar útskýrðu þetta betur væri mun minna um sótthitahræðslu.

Þessi misskilningur varðandi sótthita kemur berlega í ljós í rannsókn sem May og Baucher birtu í Pediatrics. Þar kemur fram að fyrirmæli til foreldra um meðhöndlun á sótthita eru oft skelfilega óskýr og skortir allt samræmi. Í könnuninni voru skoðaðar upplýsingar sem veittar voru foreldrum sem komu til læknis með veik börn sín. Hún leiddi það í ljós að 10 prósent lækna ræddu ekki skilgreiningu á háum sótthita, 25 prósent þeirra ræddu næstum aldrei um hættur af sótthita, en dapurlegast var að heil 15 prósent lækna ræddu aldrei um orsakir sótthita, þar sem þeir gerðu ráð fyrir að foreldrum væri kunnugt um mikilvægi sótthita.

Heimild: Pediatrics. Vol 90. Issue 6, pp. 851-854, 12/01/1992. “Fever phobia: the pediatrician's contribution.”

Ef foreldrar skildu mikilvægi hita og hvernig þau ættu að annast barn með sótthita á viðeigandi hátt þá væru foreldrar mun afslappaðri varðandi ummönnun veikra barna. Þeir væru lausir við ónauðsynlega streitu, ónauðsynlegar læknisheimsóknir og heimsóknir á bráðavaktir, og best af öllu væri þó að börnin myndu hagnast á því að vera með sótthita til að berjast við sýkingar. Áhyggjur af sótthita eru oftast ekki réttlætanlegar en eru skiljanlegar sökum óviðunandi upplýsinga. Heilsufræðsla til að sporna gegn sótthitahræðslu ætti að vera almennur hluti af heilsugæslu barna.

Hvenær er sótthiti skaðlegur?

Fyrir utan að vita að hiti er mikilvægur fyrir virkni ónæmiskerfisins þá er einnig mikilvægt að vita að líkaminn býr sjálfur yfir úrræðum til að verjast of háum hita. Margir foreldrar vita þetta ekki og halda að sótthitinn haldi áfram að hækka í banvæn mörk ef hann er ekki meðhöndlaður. Fyrir utan undantekninga aðstæður, svo sem mikillar ofþornunar eða óöruggra kringumstæðna, eins og til dæmis að vera lokaður inni í heitri bifreið, fer sótthiti hjá venjulegu barni ekki úr böndunum. Þess vegna er ákaflega sjaldgæft að sótthiti af völdum smitsjúkdóma fari yfir 41,7°C (107°F).

Hræðsla margra foreldra við háan hita, sem skilgreina má sem hærri hita en 40°C (104°F) sem er viðvarandi í nokkra daga, er að hann valdi krampa. Hitakrampi lýsir sér í afbrigðilegum rykkjum í öllum líkamanum án vísbendinga um sýkingu í miðtaugakerfi. Hitakrampar eru algengastir hjá börnum á aldrinum þriggja mánaða til fimm ára og vara venjulega í fimm mínútur eða styttri tíma. Um það bil þrjú prósent allra barna fá hitakrampa einhvern tíman í æsku. Hitakrampar koma venjulega þegar sótthiti hækkar skyndilega en ekki vegna þess að hann er viðvarandi, nema þegar barnið þjáist af vökvaskorti.

Það er ekki vel skilið hverjum eru hættara á að fá hitaköst. Þriðjungur barna sem fá hitakrampa einu sinni, fá hann aftur. Hættan á því eykst ef fyrsta hitakrampakastið á sér stað fyrir 16 mánaða aldur og ef hitakrampar eru þekktir í fjölskyldunni. Almennt er talið 30-40% líkur á að barn sem hefur fengið hitakrampa fái einn hitakrampa til viðbótar. Ef barn hefur fengið hitakrampa tvisvar sinnum eru 50 prósent líkur á því að það gerist aftur. Þó að hitakrampar séu óhugnarlegir eru þeir næstum aldrei hættulegir. Þrátt fyrir það er mikilvægt ef barnið fær hitakrampa að leita læknishjálpar samstundis. Þar að auki ef barnið þitt er yngra en sex mánaða, eða ef eldra barn hefur haft hærri hita en 40°C (104°F) í meira en 4-5 daga, þarf að hafa samband við heilbrigðisstarfsmann.

Hvernig best er að meðhöndla sótthita heima fyrir

Hvað er þá best að gera til að hugsa um barn heima við?

1.Hvetjið til mikillar vatnsdrykkju

Sótthiti eykur vökvatap en ofþornun viðheldur háum hita. Börn með sótthita eru oft ekki þyrst eða þegar þau loksins langar að drekka þá eru þau þegar farin að ofþorna. Verið dugleg að bjóða þeim vatn eða „vökvahleðsludrykki“ eins ogGatorade. Hver dropi eða teskeið skiptir máli. Margir litlir sopar eru oft betri, sérstaklega ef barninu er óglatt. Ef nauðsyn krefur má nota dropateljara úr plasti sem hægt er að kaupa í lyfjaverslunum, til að koma vatni varlega ofan í barnið.

2. Á að hafa barnið léttklætt eða pakka því inn?

Svarið fer eftir eðli sótthitans og áhrifunum á barnið. Ef barnið er fölt, skelfur eða kvartar um kulda er gott að pakka því inn í sæng eða teppi sem „andar“, en auðvelt þarf að vera að fjarlægja ábreiðurnar. Ef sótthitinn er tiltölulega lágur klæðið barnið þá vel og gefið því heita drykki til að hjálpa líkamanum að mynda sótthita. Kvarti barnið yfir að því sé of heitt, er gott að nota léttan klæðnað eða lök til að láta því líða vel.

3. Svelta hitann?

Börn með sótthita hafa venjulega ekki mikla matarlyst og það er mikilvægara að barnið drekki nóg frekar en það borði. Látið barnið ráða því hvenær og hvað það vill borða. Prófið létta fæðu, svo sem kjúklingasúpu eða aðra létta og auðmelta en hitaeiningaríka fæðu.

4. Forðist hvítan sykur

Það hefur verið skráð að hvítur sykur geti bælt ónæmiskerfið. Niðurstöður rannsóknar sem birtar voruí the American Journal of Clinical Nutrition árið 1977 sýndu að sykur hefur neikvæð áhrif á ónæmiskerfið. Með því að skoða blóð sem tekið var úr þátttakendum var hægt að sjá fjölda og virkni hvítra blóðfruma bæði fyrir og eftir að þeim voru gefnir mismunandi sykurskammtar eða 6, 12, 18, og 24 teskeiðar. Eftir því sem skammturinn var aukinn minnkaði virkni hvítra blóðfruma í þátttakendum. Virkni hvítu blóðfrumanna hjá þeim sem höfðu innbyrt stærsta skammtinn var nánast engin innan klukkustundar frá því að sykursins var neytt. Ónæmisbælingin stóð yfir í allt að tvö tíma eftir neyslu sykurs, en gat varað í allt að fimm tíma í sumum tilfellum. Heimild: Am J Clin Nut.1977;30:613 “Depression of lymphocyte transformation following oral glucose ingestion.”

Hvers vegna er þetta mikilvægt? Hvítar blóðfrumur eyða vírusum og bakteríum sem ráðast á varnir okkar. Án viðleitni þessara fruma eykst viðkvæmni fyrir sýkingu og bati yrði hægur. Þess vegna ætti ekki að gefa börnum með sótthita Coca-Cola, 7-Up eða Ginger Ale ef þeim er illt í maganum eða rjómaís til að kæla særindi í hálsi. Þetta mikla sykurmagn getur bælt ónæmiskerfið enn meira, einmitt þegar mest þörf er á að það sé sem sterkast.

Á að beita lyfjameðferð eða ekki?

Þumalputtaregla, þegar sótthiti er meðhöndlaður, er að „ekki gera neitt strax“ sem þýðir að athugun er betri kostur en að hlaupa strax í lyfjaskápinn. Drekkur barnið vel? Hefur það þvaglát á minnsta kosti fjögurra tíma fresti eða bleytir það að minnsta kosti átta bleyjur á dag? Er barninu huggun að snertingu? Reynir barnið að leika sér? Ef svörin við þessum spurningum eru jákvæð er líklegt að veikindin séu ekki alvarleg, sama hvað hitamælirinn segir.

Hérna eru kostirnir og gallarnir við að gefa barninu þínu óávísunarskyld lyf til að létta á hita.

Góðu fréttirnar: Lyf eins og paracetamól (acetaminophen) má að nota til að bæta líðan. Ef barninu líður ömurlega vegna sótthitans má prófa einn eða tvo skammta. Ef barnið verður frískara eða líður mun betur eftir stutta stund er líklegt að sýkingin sé ekki alvarleg. Barnið gæti verið líklegra til að drekka meira, borða svolítið og sofa meira ef því líður betur. Þetta þýðir hitanum er haldið í um það bil 38°C eða 38,5°C (100°F eða 101°F).

Ekki svo góðu fréttirnar: Nokkrar rannsóknir hefur sýnt fram á að með því að bæla niður hitann tekur það líkamann lengri tíma að ná bata.

Rannsókn á börnum með hlaupabólu sýndi að börn sem fengu paracetamól (acetaminophen) voru lengur með kláða og lengur að fá hrúður en börn sem fengu lyfleysu.

Heimild: J Pediatr. 1989; 114:1045-1048.“Acetaminophen: more harm than good for chickenpox?”

Niðurstöður rannsóknar á fullorðnu fólki sýndu að aspirín og paracetamól (acetaminophen) virkuðu bælandi á framleiðslu mótefna sjúklingsins, juku kvefeinkennin og höfðu líka tilhneigingu til þess að lengja bataferlið. Heimild: J InfectDis. 1990; 162:1277-1282. “Adverse effects of aspirin, acetaminophen,and ibuprofen on immune function, viral shedding, andclinical status in rhinovirus-infected volunteers.”

Lokaorð

Notaðu hitalækkandi lyf sparlega þegar barn þitt hefur óþægindi sem fylgja sótthita upp að 40°C. Veltu fyrir þér hvort þú sért að gefa hitalækkandi lyf til að lina óþægindi barnsins eða til að minnka þínar eigin áhyggjur. Ef ekki virðist um hættuástand að ræða væri athugandi að reyna að nota te úr sólhatti, lavenderolíu, D vítamín (5.000-50.000 IU á dag) og C-vítamín (22mg. á kíló) áður en gripið er til hitalækkandi lyfja.

Heimild

The Importance of Fever

Athugasemd höfundar

Mér finnst þetta frábær grein og sem betur fer var ég búinn að lesa hana áður en ég eignaðist börn (á tvö, eina stelpu 3 ára og einn strák sem er rétt að verða 5 ára). Það er algjör lúxus að geta verið með barni sínu án þess að hafa áhyggjur hverja sekúndu af ástandi þess í veikindum.

Það er sorglegt hvað foreldrar eru orðnir hræddir þegar börnin þeirra eru veik, sem er náttúrulegt ferli. Það er kannski ekki furða af tveimur ástæðum.

1 – Heilbrigðiskerfið elur á hræðslu með þessum stanslausa áróðri sínum til að réttlæta aðgerðir sínar. Barnið þitt fæðist og það fær K vítamín annars gæti það dáið úr skyndilegum blæðingum, það verður að bólusetja það annars getur það dáið úr fjöldan allann af barnaveikjum (og reyndu að segja nei við bólusetningnum, þá fer sko hræðslu áróðursmaskínan í turbógír), notaðu stíla fyrir hitann því hiti er hættulegur og þannig má lengi telja. Það eru ótrúlega fyndin viðbrögð sem maður getur fengið þegar maður segir fólki að krakkarnir mínir hafi aldrei notað hitalækkandi, astmapúst eða sýklalyf (7-9-13, bank bank og allt það). Viðbrögðin geta verið þannig að manni líður eins og geimveru eða að maður sé vondur því maður sé að neita þeim um eitthvað og láta þeim líða illa af óþörfu.

2 – Hin ástæðan er sú að við sem samfélag erum að gleyma gömlum, oft náttúrulegum læknisráðum sem gengu frá foreldri til barns, kynslóð eftir kynslóð. Á meðan frumbyggjar og öll samfélög upp að okkar nútímasamfélagi hafa lagt ríka áherslu að varðveita vitneskju sína og fræða sínar yngri kynslóðir hvernig er best að hugsa um sig og sína við mismunandi aðstæður þá höfum við sem nútímafólk lagt þessa ábyrgð í hendur á opinberum stofnunum. Og þegar kemur að veikindum þá myndi ég sem foreldri leita til sjúkrastofnanna í örvæntingu minni með allt mögulegt enda er fátt meira sem elur á hræðslu en fáfræði.

Ekki líta á veikindi barna þinna sem eintóma ástæðu til að hræðast eða sem ónæði því að þú kemst ekki í vinnuna. Sumir sérfræðingar hafa lagt fram þær kenningar að börn verði svona oft veik því að það er leið náttúrunnar að byggja upp ónæmiskerfi þeirra.

En á sama tíma skaltu varast að vera svo viss í hlutverki þínu sem heimahjúkrari að þú ferð ekki með barnið þitt til læknis fyrr en í rauðan dauðan. Það er ekkert að því að fá álit á ástandi barnsins ef þú telur ástæður vera til. Í lokin er hér listi af ástæðum af hverju þú ætti að fara með barnið til læknis ef það er með hita sem ég fékk hér.

  • Floga- eða krampaköst
  • Missir af meðvitund
  • Stífur háls
  • Erfiðleikar með öndun
  • Mikil sársauki í líkama (sérstaklega í höfði, brjósti eða maga)
  • Ef einhver líkamshluti bólgnar út
  • Útferð frá leggöngum sem er lituð eða illa lyktandi
  • Einkenni frá þvagrás (sársauki við þvaglát eða illa lyktandi þvag)