Geta fæðubótarefni minnkað ofbeldi í fangelsum?

Grein þýdd og stytt frá www.pn.psychiatryonline.org

Bresk rannsókn sem birt var í British Journal of Psychiatry hefur sýnt að fæðubótarefni sem inniheldur vítamín, steinefni og fitusýrur getur minnkað agabrot hjá föngum, og þá sérstaklega ofbeldis agabrot. Niðurstaðan hefur verið gagnrýnd af fangelsisgeðlækni.

Fyrri rannsóknir hafa tengt ákveðin næringarefni við heilastarfsemi og við ákveðin geðástönd. Einnig hafa rannsóknir sýnt að lífsnauðsynlegu fitusýrurnar ómega 3 og 6, sem hafa áhrif á taugaboðsefnin serótónín og dópamín, skortir gjarnan í ofbeldisfullum afbrotamönnum. Með þessar niðurstöður í huga lagði C. Bernard  Gesch, rannsóknarmaður við Oxford háskólann í Bretlandi, og félagar fram tilgátu að sumir fangar gætu skort ákveðin næringarefni og með því að leiðrétta skortinn væri hægt að hafa áhrif á andfélagslega hegðun þeirra.

Í tilrauninni voru 231 ungir fangar (18 ára og eldri) skipt handahófskennt í tvo hópa, annar hópurinn fékk eina vítamínstöflu með steinefnum og fjórar fitusýrutöflur á dag á meðan hinn hópurinn fékk lyfleysu sem leit alveg eins út. Rannsakendurnir fylgdust síðan með agabrotum hjá þáttakendum á meðan tilrauninni stóð til sannreyna hvort fæðubótaefnin væru að hafa einhver áhrif. Og þau höfðu sannarlega áhrif.

Fjöldi agabrota hjá hópnum sem tók fæðubótarefni fækkaði um 35% miðað við þann fjölda brota sem þeir höfðu framið fyrir upphaf tilraunarinnar, sem er umtalsverður tölfræðilegur munur. Til samanburðar þá fækkaði agabrotum hjá lyfleysu hópnum um 7% sem er tölfræðilega ómarktækt. Þegar kom að ofbeldis agabrotum þá fækkaði þeim um 37% hjá fæðubótarhópnum, sem er verulega marktækur munur, en einungis 10% í lyfleysuhópnum sem er ómarktækur munur.

Niðurstaða Gesch og félaga var sú að fæðubótarefni fækkuðu agabrotum, og þá sérsaklega þau sem fálu í sér ofbeldi. Í niðurstöðuna skrifuðu þeir að “áhrif mataræðis á andfélagslega hegðun hefur verið vanmetin og meiri athygli ætti að leggja í mataræði fanga”.

Rannsóknin hefur verið gagnrýnd af J.S. Zil sem er yfirgeðlæknir fangelsismála í Kaliforníuríki. Hann segir að rannsakendurnir hafi rannsakað áhrif þess að leiðrétta næringaskort án þess að hafa mælt hvort næringaskortur hafi verið til staðar í upphafi. Í viðtali við Cesch bregst hann við þessari gagnrýni að samkvæmt matardagbókum sem fangarnir héldu væri inntaka fjölda næringaefna undir ráðlögðu magni. Cesch sagði einnig frá fyrirætlun sinni að framkvæma fleiri tilraunir sem þessa og í næstu tilraun verður næringarmagn í blóði viðfangsefna mælt.

Heimild

Can Taking Supplements Help Curb Prison Violence?

Athugasemd höfundar

Ég hef sagt nokkrum sinnum frá þessari rannsókn, auk nokkurra svipaðra, í fyrirlestrum hjá mér til að sýna fram á að mataræði hefur áhrif á hegðun.

Aðrar svipaðar rannsóknir hafa einnig sýnt að bætt mataræði bætir andfélagslega hegðun um ca.40%. T.d. Schoenthaler sem vann með vandræðaunglingum setti yfir 1000 viðfangsefna sinna á “low sugar diet” sem lækkaði andfélagslega hegðun þeirra um 44%.

Persónulega skil ég ekki þessa gagnrýni frá J.S. Zil þar sem skortur á fjölda næringaefna er orðinn mjög algengur hjá almenningi og ekki heldur maðurinn að fangar upp til hópa séu heilsufrík sem ganga á milli lífrænna heilsuveitingastaða til að passa upp á næringarinntöku sína? Uhh, þvert á móti myndi ég halda hið andstæða. Einnig eru til rannsóknir sem einmitt segja að ofbeldismenn skorti ákveðin næringarefni meira en almenningur og Cesch gengur útfrá því í upphafi rannsóknarinnar. Þess utan sýnir rannsóknin fram á marktækan mun á milli fæðubótarhópsins og lyfleysuhópsins, ef það er ekki leiðrétting á skorti þá er það bara eitthvað annað. Who cares? Hérna er komin ódýr, heilbrigð leið til að bæta ástand fanga. Af hverju er ekki verið að nota þetta? Svo ef þetta virkar ekki til að bæta andfélagslega hegðun þeirra þá auðvitað bæta vítamínin, steinefnin og fitusýrurnar ýmsa aðra heilsufarslega þætti, hræðilegar aukaverkanir það.