Frá örófi alda hefur maðurinn, eins og flest dýr, getað leitað til náttúrunnar að lausnum fyrir ýmis heilbrigðisvandamál. Þetta nær líklegast eins langt aftur og til þess að við vorum apar, en vitað er að apar leita til ákveðina jurta í náttúrunni þegar veikindi herja á þá. Grasalækningar eru því án efa elsta lækningaaðferð mannsins.
Aðgangur að náttúrlegum lausnum er þannig samkvæmt hefðinni okkur mannfólkinu nauðsynleg til að geta stundað hefðbundnar lækningar, og þá er ég ekki að tala um “hefðbundnar lækningar” þar sem kemísk tilbúin lyf, skurðaðgerðir og geislanir eru notaðar sem hafa ekki með “hefð” að gera og er því augljóslega málvilla og væru betur kallaðar nútímalækningar, vísindalækningar eða óhefðbundnar lækningar.
Jurtir hafa spilað mikilvægt læknahlutverk í fornum og frumstæðum samfélögum eins lengi og maðurinn hefur verið til og upp úr því hefur komið gríðarlega dýrmæt þekking og reynsla sem við nútímafólkið getum nýtt okkur. Vissulega ættum við nútímafólkið í grunninn að taka hreint og óunnið mataræði frumbyggja til fyrirmyndar til að fyrirbyggja sjúkdóma og lágmarka þörf á jurtum til lækninga, en það er ekki viðfangsefnið núna.
Opinber andstæða við náttúrulegar lausnir
Því miður, í algjörri andstæðu við almenna skynsemi, eru yfirvöld í sí og æ að leggja á okkur reglugerðir sem takmarka aðgang almennings að náttúrulegum lausnum og einskorðar okkur í ríkari mæli við hið opinbera “heilbrigðis”kerfi sem leysir vandamál með kemískt tilbúnum lyfjum, skurðaðgerðum og geislunum.
Í gær, 30. apríl 2011, var gengið lengra en nokkurn tímann áður í að útiloka aðgang almennings á lækningajurtum þegar ný reglugerð tók í gildi í löndum Evrópusambandins sem takmarkar stórlega aðgengi að læknajurtum (Traditional Herbal Medicinal Products Directive - Directive 2004/24/EC).
Með þessari reglugerð munu þúsund ára gamlar lækningajurtir verða einungis leyfðar ef þær uppfylla nýtt samþykktarferli, sem verður svo stíft og dýrt að það er fyrirfram vitað að meirihluti jurta mun ekki komast í gegnum það. Gerð verður krafa um að jurtir þurfa að undirgangast gríðarlega dýrar rannsóknir og samþykktarferli, þrátt fyrir að hafa sannað gildi sitt í gegnum aldirnar. Fyrir hverja jurt getur þetta ferli tekið mörg ár. En líklegast munu fæstar jurtir fara í gegnum þetta ferli sökum kostnaðar og reynslan af notkun þeirra mun því miður gleymast og falla niður.
Allt eru þetta reglugerðir sem eru settar fram í nafni þess að vernda almenning, sem þær gera vissulega að einhverju leyti, en raunveruleg afleiðing þessara reglugerða er að þær takmarka aðgang almennings að náttúrulegum lausnum og þvinga okkur að þurfa að leita á náðir lyfjalækninga.
Áhrif reglugerðarinnar
Um þessar mundir er búið að ná í gegn minna en 200 jurtum sem er einungis lítið brot af þeim jurtum sem við höfum notað í gegnum tíðina. Einungis í Frakklandi eru taldar vera 1500 lækningajurtir og 20.000 á heimsvísu. Kínverskar lækningar nota t.d. um 17.000 mismunandi blöndur.
Sem dæmi tók yfir 2 ár og tugi sérfræðinga að viðurkenna eiginlega fenníkufræja fyrir meltingu, gegn krömpum og sem slímlosandi fæðubótefni, eitthvað sem hefur verið vitað í margar aldir í Evrópu, í kringum Miðjarhafið og í Kína.
Ef jurt hefur ekki fengið samþykki þann 30. apríl skal hún fjarlægð úr hillum verslanna. Búast má fljótlega við sama hér á Íslandi þar sem við aðlögum okkur að EU reglum í þessu málefni.
Hvað verður um íslenskar lækningajurtir sem enginn hér á landi hefur fjárhagslegt bolmagn í að borga í gegnum þetta samþykktarferli veit ég ekki.
Hér er hægt að horfa á stutt myndband frá The League for Natural Medicine sem segir frá jurtareglugerðinni.
Skert heilsufrelsi
Nú þegar er heilsufrelsi almennings hér á Íslandi stórlega skert þar sem fjöldi öruggra og virkra fæðubótaefna er bönnuð eða verulega takmörkuð. Samkvæmt því sem ég sé á ferðalögum mínum erlendis og að dæma frá samtölum við fagfólk á þessu sviði þá virðist Ísland vera það land sem gengur hvað harðast fram að banna náttúruleg fæðubótaefni, nema kannski fyrir utan Noreg sem stendur jafnilla eða jafnvel verri en við.
Dæmi um þetta hér á landi eru að St John’s Wort og SAMe er bönnuð sem rannsóknir hafa margsýnt að virki eins vel eða betur en þunglyndislyf án þeirra skaðsamlegu aukaverkanna sem fylgja þunglyndislyfjum. Einnig eru 5-HTP og amínósýran trýptófan bönnuð þar sem þau hafa jákvæð áhrif á framleiðslu serótóníns (gjarnan kallað gleðihormónið). Hver er hin raunverulega ástæða þess að takmarka aðgang að þessum öruggu og einföldu lausnum til að létta lundina? Sama má segja t.d. um hormónavandamál þar sem nánast öll virku fæðubótaefnin fyrir það svið hafa verið bönnuð nú þegar.
Áhrif lyfjafyrirtækja?
Allar greinar og bækur sem skrifaðar eru um þetta málefni eiga það sameiginlegt að benda á lyfjafyrirtækin sem ástæðu fyrir þessum reglugerðum sem takmarka aðgang almennings að náttúrulegum lausnum. Þar er staðhæft að lobbíistar á vegum stóru lyfjafyrirtækjanna (big pharma) vinni ötulega á bakvið tjöldin að þessu málefni enda um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir þau þar sem náttúruleg fæðubótaefni og þá sérstaklega lækningajurtir veita lyfjum harða samkeppni. Sérstaklega núna þegar álit almennings á lyfjum fer hratt versnandi.
Það er ekki af ástæðulausu að svo margir hafa spurt mig “af hverju Halli er ekki St. John’s Wort eða SAMe notað í stað geðlyfja fyrir þunglyndi?” eftir að ég birti greinar um hversu áhrifarík þessi fæðubótaefni eru. Svarið er að ég hef ekki hugmynd um það. Stundum eru hlutirnir svo vitlausir að engin skýr svör liggja á reiðu. Ef heilbrigðiskerfið gefur sig út fyrir að stunda lækningar byggðar á vísindalegum staðreyndum þá myndu þessu tvö fæðubótaefni vera mun ákjósanlegra val en þunglyndislyf a.m.k. fyrir mild og meðal alvarleg þunglyndi. Þessu fæðubótaefni kosta brot af verði þunglyndislyfja, þau eru margfalt öruggari í notkun þar sem aukaverkanir eru nánast engar í samburði við að lyfin sem hafa tíðar og mjög alvarlegar aukaverkanir og síðast en ekki síst þá eru ekki erfið fráhvarfseinkenni af náttúrulyfjunum eins og þeim kemísku. Með þessar staðreyndir fyrir framan sig þá er ekki af ástæðulausu að fólk finnist furðulegt að heilbrigðiskerfi sem segist þurfa að spara og hefur öryggi fólksins í fyrirrúmi fari ekki þessa leið. Það má til gamans geta að í Þýskalandi er St. John’s Wort ávísað af læknum í mun ríkari mæli en Prozac, þannig að það er engin ástæða af hverju þetta ætti ekki að vera hægt hér á Íslandi nema hvað ef ríkið hafi einhverja skyldu að halda lyfjafyrirtækjum uppi fjárhagslega, sem var svo ekki seinast þegar ég vissi.
Mismunun og ósanngirni
Eftir að læknir líkur námi sínu má hann ávísa lyfjum. Eftir að grasalæknir líkur 4 ára háskólanámi í grasalækningum má hann ekki ávísa einni einustu jurt hér á landi, heldur má hann (eða hún, auðvitað) einungis notast við nákvæmlega sömu jurtir og almenningur hefur aðgang að. Þrátt fyrir eyða 4 árum í að læra eiginleika jurta, hvernig á að beita þeim fyrir mismunandi vandamál, mögulegar aukaverkanir og hvernig á að bregðast við þeim, við hvaða aðstæður er ekki ráðlagt að nota ákveðnar jurtir, mögulegar milliverkanir milli jurta og jurta, jurta og fæðubótaefna og síðast jurta og lyfja þá er þessum háskólamenntaða sérfræðingi í jurtalækningum ekki treyst til að vinna vinnu sína.
Þetta væri skiljanlegt ef hættan við notkun læknajurta væri umtalsverð. En svo er ekki. Aftur á móti er hættan við notkun á hefðubundnum læknalyfjum umtalsverð. Rannsóknir hafa sýnt að dauðsföll af völdum lyfja í Bandaríkjunum einum saman er yfir 100 þúsund manns á ári, um 750 þúsund neyðarferðir eru farnir á sjúkrahús einungis vegna aukaverkana af lyfjum og stór hluti af heimsóknum á bráðamóttöku eru vegna aukaverkana af lyfjum.
Það er greinilega ekki að ástæðulausu að stór hluti fólks kýs frekar náttúrulegar lausnir frekar en lyf.
Einn iðnaður drepinn á kostnað annars
Það furðulegasta við þetta ástand er að ef jurt eða fæðubótaefni virkar gegn einhverjum sjúkdóm eða ástandi (t.d. hiksta) þá er það sagt vera “lyfjavirkt” fæðubótaefni og þá er almenningi bannað að nálgast það.
Hvernig kom það til að lyf eiga alltaf réttinn fram yfir fæðubótaefni? Til dæmis er ein aðal ástæðan sem gefin er upp fyrir því að banna St. John’s Wort er að það trufli virkni nokkura lyfja. Hvaða skynsemi er í því að banna jurt sem hefur sannaða virkni og er örugg í notkun á kostnað lyfja með fjölda skaðsamlegra aukaverkanna? Af hverju hef ég ekki þann rétt sem manneskja að velja mér þær lausnir sem ég tel að séu bestar fyrir mig? Er það ekki brot á mínum mannréttindum að takmarka valmöguleika minn við kemísk lyf þegar ég trúi á náttúrulegar lausnir?
Eitt er víst að að hérna eru ekki hagsmunir neytenda í fyrirrúmi, það eru augljóslega einhverra annara hagsmunir.
Og því miður eru fleiri slæmir hlutir í væntum. Væntanlegt er ný Evrópureglugerð um hámarksskammta vítamína og steinefna og segja þeir sem þekkja til að þar muni vítamínum og steinefnum verða settur svo þröngur stakkur með fáranlega lágum hámarksgildum að búast má við því að vítamínin og steinefnin sem við kaupum út í búð muni varla duga fyrir köttinn minn.