Í fáa tugi ára hefur okkur verið gefnar næringarráðleggingar frá hinu opinbera (í dag, Lýðheilsustöð) sem miðast við það að allir eiga að vera á hákolvetna – lágfitumataræði. Þessar ráðleggingar hafa verið gagnrýndar frá upphafi fyrir að hafa litlar sönnur að mataræði sem þetta henti okkur mannfólkinu eitthvað betur en önnur mataræði og að það leiði síður til bætingar á heilbrigði samfélagsins.
Á fimm ára fresti eru þessar næringarráðleggingar endurskoðaðar í Bandaríkjunum sem var nú nýlega og var þeim lítið sem ekkert breytt, heldur endurspegla þær ráðleggingar sem byrjað var með og okkur hefur verið gefið í 30 ár eða svo. Hægt er að ná í nýjustu opinberu ráðleggingarnar með því að smella hér.
Þetta hefur vakið hörð viðbrögð frá hluta af vísindasamfélaginu sem heldur því fram að þessar ráðleggingar endurspegli ekki þá reynslu sem við höfum af þessum næringarráðleggingum, þær eru of sniðnar til að henta matariðnaðinum og það sem versta er að rannsóknir hlaðast upp sem benda ítrekað á að þessar ráðleggingar eru í versta falli rangar.
Hér fyrir neðan verður birt samantekt á grein sem ber heitið “In the face of contradictory evidence: Report of the Dietary Guidelines for Americans Committee” sem var skrifuð af hópi sérfræðinga og birt var í fagtímaritinu Nutrition (26 (2010) 915–924) þar sem lagður er rökstuðningur fyrir því af hverju núverandi næringarráðleggingar eru að svo mörgu leiti rangar og eiga ekki við vísindaleg rök að styðjast. Hægt er að nálgast þessa grein með því að smella hér og mæli ég sérstaklega með því að fagmenn sem gefa ráðleggingar um næringu lesi upprunalegu greinina. Fyrir leikmenn, eða þá sem vilja lesa stutta samantekt, þá kemur hún hér. Ég mun ekki breyta innihaldi hennar og mun ég setja álit mitt á þessu málefni í lokin.
In the face of contradictory evidence: Report of the Dietary Guidelines for Americans Committee.
Eftir Adele H. Hite M.A.T. , Richard David Feinman Ph.D. , Gabriel E. Guzman Ph.D. ,Morton Satin M.Sc. , Pamela A. Schoenfeld R.D., Richard J. Wood Ph.D.
Framþróun rannsókna á sviði næringar hefur ekki leitt til samkomulags meðal sérfræðinga eða almennings á opinberum næringarráðleggingum, heldur hafa þær leitt til meiri óvissu. Lengi hefur verið gagnrýnt hvort ráðleggingar að lækka fituinntöku og auka neyslu á kolvetnum hafi verið nokkurn tímann viðeigandi til að minnka líkur á offitu, sykursýki og hjarta- og æðasjúkdómum. Þessum spurningar voru lagðar fram þegar fyrstu opinberu næringarráðleggingarnar voru settar fram fyrir yfir 30 árum síðan og enn þann daginn í dag hefur þeim ekki verið svarað.
Þann 15. Júní, 2010 var nýjasta skýrsla Dietary Guidelines Advisory Committee (DGAC – nefnd sem setur saman opinberar næringarráðleggingar) gefin út og vonast var til að hún myndi svara þessum spurningum en í stað þess heldur hún áfram að ráðleggja eitt mataræði fyrir alla sem er byggt á gögnum sem eru veik, tekin úr samhengi og jafnvel mótsagnarkennd.
Ákveðnar ráðleggingar, veik rök
Síendurtekið eru gefnar ákveðnar ráðleggingar í skýrslunni þrátt fyrir veik rök sem styðja þær. Hér eru nokkur dæmi:
Í samantektinni fyrir “Þörf á framtíðar rannsóknum” varðandi kolvetni segir: Rannsóknir á heilsutengdum áhrifum kolvetna innihalda oft á tíðum marga óvissuþætti og útkoma þeirra er misjöfn vegna ónákvæmra mælinga og fjölbreyttra flokkana og skilgreininga.
Þrátt fyrir þetta hikar ekki DGAC skýrslan að gefa út beinar ráðleggingar í samræmi við fyrri ráðleggingar
Heilbrigt mataræði inniheldur hátt hlutfall kolvetna [bls. D5-42]
Í fjarveru rannsókna sem geta útskýrt ástæður þess hvernig mataræði sem er hátt í kolvetnum er gagnlegt fyrir almennt heilbrigði þá verður þessi ráðlegging að teljast ótímabær.
Í hlutanum sem fer yfir próteinneyslu er sagt frá að erfitt sé að leggja mat á neyslumynstur grænmetisæta gagvart próteini þar sem það er flókið og nútíma aðferðarfræði nær ekki til mikilvægra breyta. Því geta rannsakendur takmarkað tengt próteinneyslu frá jurtaríki við heilsufarslegan ávinning [bls. D4-31]
Þrátt fyrir þetta ber ekki á þannig takmörkununum í DGAC skýrslunni, heldur er Bandaríkjamönnum ráðlagt að:
Breyta mataræði sínu meira í átt að grænmetisfæði sem leggur áherslu á grænmeti, eldaðar þurrar baunir og gulertum, ávöxtum, heilkorni, hnetum og fræjum [bls. B3-3]
Þessi ráðlegging er sett fram þrátt fyrir viðurkenningu á að heilsufarlegir kostir mataræðis sem þessa eru óþekktir og jafnframt er skrifað í DGAC skýrslunni um “mögulegar takmarkanir á grænmetisfæði fyrir mikilvæg næringarefni” [bls. D4-31]. Ætla mætti að ráðleggingar á þessu sviði væru lagðar fram af meiri varkárni.
DGAC skýrslan gefur einnig beinar ráðleggingar um að auka neyslu á grófu korni þrátt fyrir óvissuþætti um kosti þess í rannsóknum sambærilegt og með kolvetni og prótein hér að ofan.
Þessi dæmi eru góð dæmi um hið almenna mynstur DGAC skýrslunnar að gefa ákveðnar ráðleggingar þrátt fyrir að veikar og ófullnægjandi sannanir þeim til stuðnings. Niðurstöður skýrslunnar styðjast við gagnreynda aðferðarfræði (evidence-based methodology) sem fær gögn sín frá Nutrition Evidence Library (NEL). Margir vankantar eru á hvernig þetta Nutrition Evidence Library er notað:
- Rannsóknarspurningar eru settar þannig upp að þær hindra ýtarlega rannsókn á vísinda- og læknagagnagrunninum
- Svör við rannsóknarspurningum eru fengin án þess að líta til allra viðeigandi rannsókna. Viðeigandi rannsóknir eru oft útilokaðar með því að orða spurningar á þann veg að einungis ákveðnar rannsóknir verða valdar (sjá punkt 1)
- Vísindafræðin eru rangtúlkuð, sett fram á blekkjandi máta og/eða ranglega dregin saman (summerised)
- Niðurstöður eru ekki í samræmi við fjölda og gæði rannsókna sem við á
- Ráðleggingar eru ekki samræmi við takmarkanir, ágreining og efasemdir sem eiga við í hverju máli
[Innskot þýðanda: Það sem punktar 1 og 2 eru að segja er að spurningar séu settar þannig fram að einungis fyrirfram ákveðin svör fást við þeim, með því að hvernig spurninginn er orðuð útiloki þær rannsóknir sem þeir vilja ekki að séu teknar með. Þannig fást fyrirfram ákveðin svör við spurningum.]
Upphaflegu næringarleiðbeiningarnar fyrir Bandaríkjamenn komu út árið 1977 og lagði til að Bandaríkjamenn myndu auka inntöku á kolvetnum og á sama tíma minnka neyslu á fitu, mettaðri fitu og salti, ráðleggingar sem eru enn haldnar fram í 2010 ráðleggingunum.
Fyrir 30 árum síðan voru þessar ráðleggingar gagnrýndar fyrir að vísindalega séð er ekki hægt að sjá fyrir að ráðleggingar sem þessar munu hafa fyrirbyggjandi áhrif á ákveðna sjúkdóma. Enn þann daginn í dag á sama gagnrýni við og DGAC skýrslan hefur ekki enn komið með rök sem svara þessari gagnrýni.
Hlutfall orkuefna (prótein, fita, kolvetni) og heilbrigði
Síendurtekið í skýrslunni kemur fram að “mjög fá amerísk börn og fullorðnir fara eftir opinberum næringarráðleggingum” [bls. D1-8] og að “áhersla ætti að vera á að minnka umfram hitaeiningainntöku” [bls. B2-3]. Samt sem áður samkvæmt DGAC skýrslunni segir að hitaeiningainntaka sé innan ráðlagðra marka og að hreyfing hafi aukist lítillega [bls. D1-1, B2-3]. Hitaeiningainntaka kvenna er að meðaltali í lægri endanum á ráðlagðri hitaeiningainntöku en á sama tíma eru þær sá hópur sem skorar hæst í ofþyngd/offitu [bls. D1-4]. Neyslumynstur meðal Bandaríkjamanns fellur innan þeirra takmarka sem mælt er með [bls. D1-1], hann borðar minna en 35% af hitaeiningum sínum sem fitu og minna en 300 mg. af kólesteróli á dag [bls. D3-10].
Bandaríkjamenn borða fleiri hitaeiningar en þeir gerðu áður en sú aukning kemur aðalega frá aukinni kolvetnaneyslu. Aukning á neyslu á kjöti, eggjum og hnetum er einungis 20 hitaeiningar, tífalt minna en aukningin á kolvetnum.
Í stuttu máli hefur neyslumynstur breyst í samræmi við opinberar næringarráðleggingar. Neysla á mettaðri fitu og heildar fitu hefur minnkað sem hlutfall, fyrir karlmenn hefur fituneysla minnkað í heild sinni og á sama tíma hefur neysla á kolvetnum aukist til muna.
Þrátt fyrir þetta minnist DGAC skýrslan ekkert á hvort þessi breyting á neyslumynstri geti verið þáttur í aukningu á offitu og lífsstíllssjúkdómum. Ekki nóg með það að skýrslan mælir með áframhaldandi sama neyslumynstri heldur leggur til að farið verður strangara eftir því.
Orkuefni: Rannsóknarspurningar eru settar saman á máta sem hindrar ýtarlega rannsókn á málefninu
Árið 2005 var gefin út skýrsla af Institute of Medicine um áhrif orkuefna á heilbrigði og hún segir “miðað við mataræði sem er hærra í fitu þá breyta hákolvetna, lágfitu mataræði líkamsstarfsemi á óhagstaðan máta með tilliti til krónískra sjúkdóma eins og kransæðasjúkdóma og sykursýki.
DGAC skýrslan útilokar allt mat á mögulegum áhrifum hárrar kolvetnaneyslu í mataræði á króníska sjúkdóma með því að setja spurningar fram á ákveðin máta. Rannsóknir sem sýna fram á áhrif orkuefna (prótein, fita, kolvetna) á líkamsstarfsemi aðra en grenningu eru útilokaðar frá Nutrition Evidence Library (NEL). Einnig eru útilokaðar allar rannsóknir sem sýna áhrif orkuefna á heilbrigði og sem áhættuþættir fyrir króníska sjúkdóma, jafnvel þegar líkamsþyngd var tekin til. DGAC skýrslan lítur einungis til samhengi krónískra sjúkdóma og hversu hitaeiningarík mataræði eru mælt í hitaeiningum per gramm og á sama tíma hunsar algjörlega áhrif vegna samsetningu mataræðis.
Orkuefni og grenning: Niðurstaða er ekki í samræmi við gögn
Skiljanlega er lagt áhersla á offitu og grenningu í DGAC skýrslunni. Skýrslan tekur algenga en ofur einfaldaða leið að útskýra þyngdartap sem einungis afleiðingu af “kaloríur inn á móti kaloríum út”. Við spurningunni “hvert er sambandið á milli hlutfall orkuefna og líkamsþyngdar hjá fullorðnum” þá kemst DGAC skýrslan af þeirri niðurstöðu að það séu sterkar og ítrekaðar sannanir fyrir því að þegar hitaeiningainntaka sé stjórnuð þá skiptir hlutfall orkuefna ekki máli fyrir þyngdartap [bls. D1-47].
NEL gagnasafnið inniheldur rannsóknir sem eru ekki í samræmi við þessa niðurstöðu. Fjöldi rannsókna sýna að lágkolvetnamataræði geti haft mun betri árangur til að léttast, jafnvel þegar hitaeiningainntaka er haldið jafnri á milli mataræða [15-18]. Fjöldi rannsókna í NEL gagnasafninu sýna fram á sama þyngdartap eða meira á lágkolvetnamataræði sem takmarkar ekki hitaeiningar eða gefur fyrirmæli um að skerða fæðuinntöku [15, 19-24]. Ýtarlegt og fullt mat á viðeigandi rannsóknum myndi sýna að fullyrðingar sem DGAC skýrslan leggur fram eru óviðeigandi.
DGAC skýrslan heldur áfram og segir: hóflega margar rannsóknir sýna fram á að mataræði sem samanstanda af minna en 45% af kolvetnum eða meira en 35% frá próteinum eru ekki áhrifaríkari en önnur mataræði til grenningar eða til að viðhalda þyngdartapi, auk sem þau eru erfið til að halda út til langtíma og geta verið hættulegri [bls. D1-47].
Þessi niðurstaða endurspeglar ekki réttilega þær 36 rannsóknir sem DGAC skýrslan inniheldur um málefnið. Tuttugu rannsóknir fundu engan mun þyngdartapi milli mataræða með mismunandi hlutfall orkuefna. Þrettán fundu að lágkolvetnamataræði virkuðu umtalsvert betur til grenningar en lágfitu- eða hákolvetnamataræði. Fjórar rannsóknir sýndu að mataræði hátt í próteinum virkuðu umtalsvert betur til grenningar en mataræði sem var lágt í próteinum eða hátt í kolvetnum [bls. D1-47, 48].
Það er ekki ljóst hvað “hóflega margar rannsóknir” þýða í þessu samhengi, 47% rannsókna sem vitnað er í sýna fram á að mataræði sem er lágt í kolvetnum eða hátt í próteinum, hvort sem hitaeiningafjöldi er skorin niður eður ei, er árangursríkari til grenningar. Skynsamlega orðuð samantekt myndi viðurkenna þessar mótsagnarkenndu niðurstöður.
Lágkolvetnamataræði: Niðurstaða er ekki í samræmi við gögn
Ekki er mælt með lágkolvetnamataræði þar sem “erfitt sé að halda það út til lengri tíma.” Tafla 1 sýnir niðurstöður úr rannsóknum úr NEL gagnagrunninum sem sýnir að ef eitthvað þá heldur fólk sig lengur við lágkolvetnamataræði heldur en lágfitumataræði [25-31]. Viðeigandi samantekt myndi segja frá þessu.
Tafla 1 | ||
---|---|---|
Samanburður á drop out tíðni milli lágfitu- og lágkolvetnamataræða |
||
|
Drop out tíðni í % |
|
Rannsókn |
Lágfitu-mataræði |
Lágkolvetna-mataræði |
Yancy et al., 2004 [25] |
45 |
24 |
Gardner et al., 2007 [26] |
22 |
12 |
Samaha et al., 2003 [27] |
47 |
33 |
Dansinger et al., 2005 [28] |
50 |
48 |
Brehm et al., 2003 [29] |
26 |
15 |
Foster et al., 2003 [30] |
43 |
39 |
Tay et al., 2008 [31] |
18 |
20 |
Lágkolvetnamataræði: Niðurstöður eru ekki í samræmi við fjölda og/eða gæði viðeigandi rannsókna
Einnig segir í niðurstöðu DGAC skýrslunnar að mataræði sem skera sig frá opinberu næringarleiðbeiningunum “geta verið síður örugg”, sem er fullyrðing sem hefur verið gerð um lágkolvetnamataræði í yfir 40 ár án þess að geta fært sönnur á því.
DGAC skýrslan vitnar í tvær rannsóknir sem fundu “að mataræði sem er lægra í kolvetnum og hærra í próteinum er tengt við hærri dánartíðni í heild sinni og sökum hjarta- og æðasjúkdóma” [32, 33, bls. D1-49]. Báðar þessar rannsóknir hafa töluverða galla í aðferðarfræði sinni. [upprunalega skýrslan fer út í að útskýra þessa galla sem verður gert hér]
Fleiri rannsóknir í NEL gagnagrunninum sýna fram á að lágkolvetnamataræði sé jákvætt gagnvart hjarta- og æðasjúkdómum heldur en hið gagnstæða. DGAC skýrslan segir frá tveimur skýrslum sem sýndu hækkun á LDL [slæma] kólesteróli á lágkolvetnamataræði [Innskot þýðanda: nýrri rannsóknir sýna að lágkolvetnamataræði breyta LDL kólesteróli í betri útgáfu af LDL kólesteróli á meðan kolvetni breyta þeim í síðri útgáfu af LDL kólesteróli sem útskýrir þessa hækkanir og lækkanir]. Sex rannsóknir frá NEL gagnagrunninum sem ekki er minnst á í niðurstöðu DGAC skýrslunnar sýndu fram á síendurtekna hækkun, og þá oftast umtalsverða, á HDL [góða] kólesterólinu og á sama tíma síendurtekna, og þá oftast umtalsverða, lækkun á þríglýseríðum sem gerist við lækkun á kolvetnainntöku [19-21, 31, 34, 35]. Ein af þessum rannsóknum [19] er rannsóknarsamantekt (meta analysis) á 13 rannsóknum sem ber saman grenningaráhrifin af lágkolvetnamataræði við lágfitumataræði. Niðurstaða þessarar samantektarrannsóknar er:
- Það var umtalsverður munur á þyngdartapi, hækkun á HDL (góða) kólesteróli, þríglýseríðum og systolic blóðþrýstingi, lágkolvetnahópnum í vil
- Fleiri þáttakendur duttu út úr lágfituhópum frekar en lágkolvetna sem sýnir að sjúklingar líki almennt betur við lágkolvetna/háprótein mataræði (andstætt fullyrðingunni að ofan að það sé erfitt að halda sér við þau)
- Niðurstöður þessa rannsókna sýna að lágkolvetna/hápróteinmataræði eru betri á 6 mánuðum og jafn árangursrík, ef ekki árangursríkari, heldur en lágfitumataræði fyrir þyngdartap og til að minnka áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum upp að einu ári
Hlutlaust mat á niðurstöðum rannsókna í NEL gagnagrunninum gefur ekki til kynna að vara ætti gegn lágkolvetnamataræðum eins og gert er í DGAC skýrslunni. Óstaðfestar hættur lágkolvetnamataræðis eru ýktar og sleppt er að segja frá síendurteknum kostum þess.
Áhrif mettaðrar fitu: Svör byggð á ófullnægjandi skoðun á gagnagrunni málefnis
DGAC skýrslan kemst að þeirri niðurstöðu að sterkar sannanir séu fyrir því að neysla á mettaðri fitu hafi neikvæð áhrif á mæligildi og lokaútkomu gagnvart tveimur sjúkdómum 1) aukið heildarkólesteról og LDL kólesteról og aukin hætta á hjarta- og æðasjúkdómum og 2) aukið insúlínviðnám og aukna hættu á sykursýki týpu 2. Gagnstætt getur minnkuð neysla á mettaðri fitu bætt þessa sjúkdóma, og að rannsóknir sýna að með því að minnka neyslu mettaðrar fitu um 5% og bæta hana upp með ein- og fjölómettuðum fitum myndi áhætta á hjarta- og æðasjúkdómum og sykursýki minnka í heilbrigðu fullorðnu fólki sem og auka insúlínnæmni í einstaklingum með týpu 2 sykursýki og einnig auka insúlínviðnám. [bls. D3-15]
Þessi niðurstaða fæst með ófullkominni leit í rannsóknargögnum. Einungis rannsóknir sem mæla áhrif mettaðra fita ásamt kolvetnum í samræmi við ráðlagt magn voru skoðaðar [þ.e. hákolvetnafæði]. Lágkolvetnarannsóknum var sérstaklega sleppt [15, 35-40].
Ekki er minnst á nýlega, umfangsmikla samantektarrannsókn sem komst að þeirri niðurstöðu að það væru engar staðgóðar sönnur fyrir því að mettaðar fitusýrur tengdust aukinni áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum [41]. Ekki er minnst á rannsóknir sem sýna að mettuð fita í blóði, sem að vera megin áhættan, stjórnast að mestu leyti af kolvetnum í fæðu. [40, 42]
Gögn frá rannsóknum og rannsóknarsamantektum hafa sýnt fram á að þegar rannsóknarviðfangsefni skiptu frá vanalega mataræði sínu yfir í lágkolvetnamataræði (minna en 45% kolvetni) þá breytist ekki hlutfall mettaðrar fitu eða heildarfitu í mataræði, á meðan jákvæðar breytingar á mæligildum fyrir hjarta- og æðasjúkdóma áttu sér stað. Fullnaðar skoðun á gögnum sem heyra undir þetta svið myndi leiða til samantektar sem myndi gera grein fyrir þessu.
Áhrif mettaðra fita: Niðurstaða er ekki í samræmi við gögn
Í niðurstöðu DGAC skýrslunnar er gefið í skyn að með því að skipta út mettuðum fitum fyrir ein- og fjölómettaðar fitur myndi nást ótvíræðar jákvæðar breytingar á áhættuþáttum fyrir hjarta- og æðasjúkdóma. Þetta er ekki staðreyndin. Rannsóknir sem DGAC skýrslan vitnar í sýna fram á hækkun á fitupróteinum sem hafa æðarkalkandi áhrif, hækkun á þríglýseríðum, lækkun á HDL kólesteróli og mismunandi efnaskiptaviðbrögð við lægri inntöku á mettuðum fitusýrum hjá ákveðnum hópum [45-48]. Þessi ágreiningsatriði og óvissur varðandi mettaðar fitusýrur eru ekki teknar fyrir í DGAC skýrslunni.
Vitnað er í rannsóknarsamantekt eftir Jakobsen [49] sem sönnur fyrir “umtalsvert öfugt samhengi á inntöku fjölómettaðra fitusýra (sem koma í stað 5% mettaðra fita) og kransæðasjúkdóma” [bls.D3-16], DGAC skýrslan túlkar niðurstöður rannsóknarsamantektarinnar ranglega. Rannsóknin sýndi að þetta samband var veikt í heildina og einungis tölfræðilegur munur fannst fyrir konur yngri en 60 ára. Rannsóknarsamantektin sýndi einnig að fyrir alla aldurshópa karlmanna og fyrir konur yfir 60 ára þá var ekki tölfræðilegur munur á að skipta út mettuðum fitum fyrir fjölómettaðar og áhættu á kransæðarsjúkdómum eða dauða af völdum þeirra. Rétt samantekt á þessari samantektarrannsókn sem og öðrum ágreiningsatriðum og óvissum á þessu sviði myndi segja að sönnur fyrir samhengi á mettuðum fitusýrum og hjarta- og æðasjúkdómum væri ófullnægjandi.
Sykursýki og fita: Niðurstaða er ekki í samræmi við gögn
Þegar kemur að sykursýki þá kemst DGAC skýrlan að eftirfarandi niðurstöðu: vaxandi fjöldi gagna gefa til kynna aukna áhættu á sykursýki týpu 2 sökum neyslu á mettuðum fitusýrum sem styður þörfina að minnka inntöku mettaðrar fitu hjá fólki með forstigseinkenni sykursýki, sem og þeirra með efnaskiptaheilkenni (metabolic syndrome) og sykursýki. [bls. D3-15] Þessi fullyrðing sýnir sama skeytingarleysi gagnvart lífeðlisfræðilegri virkni eins og áður. Öll áhrif mettaðrar fitu er einungis mælt í samhengi við opinberar ráðleggingar á kolvetnaneyslu (þ.e. hátt hlutfall kolvetna). Þar sem kolvetni í mat er eina uppsprettan fyrir glúkósa, er órökrétt að hunsa hlutverk kolvetna gagnvart áhættu á sykursýki týpu 2 og sýnir skeytingarleysi gagnvart eðlilegri lífeðlisfræðilegrar virkni. Stjórnun á inntöku kolvetna er meginforsenda þess að ná tökum á glúkósajafnvægi. [50] Þrátt fyrir þetta voru engar rannsóknir þar sem litið var á lækkaða inntöku kolvetna teknar fyrir í DGAC skýrslunni.
Aftur virðist DGAC skýrslan mistúlka rannsóknir sem hún leggur fram til að styðja fullyrðingar sínar. Sem dæmi þá sýndu 12 af 15 rannsóknum sem voru teknar fyrir í rannsóknargagnrýni Galgani og félaga [51] að það væri ekki samhengi á gerð fitusýra og insúlínnæmni. Hu og félagar [52] komust að þeirri niðurstöðu að “næringarleiðbeiningar til að fyrirbyggja týpu 2 sykursýki ætti að leggja áherslu á gæði fitu og kolvetna frekar en að einbeita sér að magni einu saman.”
Þær rannsóknir sem lagðar eru fram til að styðja fullyrðingar DGAC skýrslunnar færa ekki nægjanlegar sönnur til að geta ályktað að minnkað hlutfall mettaðra fitusýra muni bæta heilsufar.
Neysla kolvetna og áhrif á heilbrigði
Aukning á neyslu hitaeininga seinustu 30 ára er nánast eingöngu vegna aukningar á neyslu kolvetna [sjá figure 1 í upprunalegu skýrslu]. Mikil athygli hefur verið á áhrifum kolvetna á ýmsa sjúkdóma eins og hjarta- og æðasjúkdóma, týpu 2 sykursýki, líkamsþyngd og tannskemmdir og birtast reglulega fréttir og rannsóknir sem taka á þessu málefni.
DGAC skýrslan afgreiðir þetta málefni einfaldlega með því að segja að niðurstaða rannsókna sé ótvíræð, “engin skaðleg áhrif á þessa þætti hafa verið skráð vegna neyslu kolvetna, [bls. D5-1]. Hvernig er komist að þessari niðurstöðu er ekki rætt frekar og frekari ágreiningur varðandi neyslu kolvetna virðist ekki vera til staðar.
Sykurstuðull og sykurálag: Niðurstaða er ekki í samræmi við gögn
Notkun á sykurstuðlinum og sykurálagi er ætlað að hafa áhrif á magn glúkósa í blóði. Ýmsir vankantar eru á praktískri notkun á þessum mælieiningum þar sem margir þættir hafa áhrif á virkni þeirra hjá manneskjum. Rannsóknir sem ræða takmörk notkunar á sykurstuðlinum og sykurálagi eru ekki teknar fyrir í DGAC skýrslunni, heldur leggur hún gjarnan fram notkun þessara mælieininga sem valkost umfram að minnka hlutfall kolvetna í fæðu þrátt fyrir að gögn sýna skýrt fram á að heildar kolvetnaneysla hefur meiri og jafnari áhrif á glúkósa, insúlínmagn og mæligildi fyrir hjarta- og æðasjúkdóma.
Nýleg rannsókn eftir Westman og félaga [67] bar saman lágkolvetnamataræði við mataræði með lágum sykurstuðli og þar kemur lágkolvetnafæði betur út. Þrátt fyrir að mataræði með lágum sykurstuðli hefur sýnt sig vera betra en hátrefja mataræði [68] eins og DGAC skýrslan mælir með þá hafa lágkolvetnafæði komið betur út.
DGAC skýrslan lítur á samhengi sykurstuðuls og sykurálags á sjúkdóma eins og hjarta- og æðasjúkdóma og sykursýki [bls. D5-21] en á sama tíma útilokaðar skýrslan rannsóknir þar sem rannsóknarviðfangsefnin eru greind með þessa sjúkdóma. Í ljósi þess að rannsóknir sýna fram á tengsl á kolvetnaneyslu og sykursýki þar sem betri blóðsykurstjórnun fylgir lægra hlutfalli kolvetna þá er þetta fyrirkomulag verulega ábótavant. Það að DGAC skýrlan mæli með mataræði sem setur áherslu á kornmeti veldur hugarangri, sérstaklega vegna þess að rannsóknir sýna síendurtekið að það sé heildarmagn kolvetna sem hefur skaðlegustu áhrifin gagnvart stjórnun á blóðsykri.
Ein af þeim ástæðum sem gefnar eru upp að erfitt yrði að ná ráðlögðum dagskammti af trefjum þegar hlutfall kolvetna fer niður. [bls. D5-4] Í grundvallaratriðum er verið að segja almenningi að það sé óráðlagt að minnka neyslu kolvetna þar sem það gæti minnkað inntöku á trefjum, þrátt fyrir það að kostir trefja eru takmarkaðir og ófullnægjanlega sannaðir. Almenningi er ætlað að sætta sig við, án fullnægjandi sannana eða útskýringa á lífeðlisfræðilegri virkni, að aukin neysla trefja frá 15gr. til 25gr. á dag sé betri fyrir manneskju með týpu 2 sykursýki en sú leið að almennt minnka hlutfall kolvetna í mataræði.
Neysla á próteinum og áhrif á heilbrigði
Í fyrsta sinn í DGAC skýrslunni er próteini lýst sem mikilvægasta orkuefninu í mataræði okkar [bls. D4-1, 3]. Skýrslan útskýrir hlutverk próteina og gæði próteina fyrir heilbrigði. Hún segir í niðurstöðu sinni að gæði próteina sé mjög mismunandi og það fari eftir samsetningu amínósýra og meltanleika próteina. Prótein úr dýraríkinu t.d. kjöt, fiskur, mjólk og egg eru prótein í hæsta gæðaflokki, á meðan hægt er að fá heilsteyptari prótein úr plönturíkinu með því að sameina t.d. baunir og kornmeti. [bls. D4-30]
Þrátt fyrir prótein úr dýraríkinu gefa af sér hágæða prótein þá eru Bandaríkjamönnum ráðlagt að breyta mataræði sínu meira yfir grænmetismataræði [bls. B3-3] og “að neyta einungis hóflega af fitulitlu kjöti, fugli og eggjum”. [A2]
Prótein úr dýra- eða plönturíkinu: Svör byggð á ófullnægjandi skoðun á gagnagrunni málefnis
DGAC skýrslan skoðar möguleg tengsl á neyslu á próteinum úr dýraríkinu og hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki týpu 2, blöðruháls-, ristils- og brjóstakrabba. Þrátt fyrir að niðurstaðan fyrir tengsl við ofanverða sjúkdóma er sögð vera “hófleg, takmörkuð, ófullnægjandi og í ósamræmi” og á sama tíma viðurkennir skýrslan að prótein úr dýraríkinu gefa okkur prótein af hærri gæðum þá varar DGAC skýrslan Bandaríkjamenn við dýrapróteinum í mataræði þeirra.
DGAC skýrslan viðurkennir að prótein úr plönturíkinu hafa ekki neina ákveðna heilsufarslega kosti [bls. D4-11] og jafnvel geti leitt til vöntunar á næringarefnum [bls. D4-16]. Rökin fyrir mikilvægi próteina í mataræði er sannfærandi en ófullnægjandi rök eru færð fyrir því af hverju ætti að leggja áherslu á prótein frá plönturíkinu.
Salt: Ráðleggingar eru ekki í samræmi við óvissu- og takmarkandi þætti
Ráðleggingar varðandi saltnotkun er líklegasta eitt besta dæmið um vankanta DGAC skýrslunnar. Hún staðhæfir að “áreiðanlegar sannanir séu fyrir því að blóðþrýstingur lækki með minni neyslu á salti hjá fullorðnum” [bls. D6-2]. Áreiðanlegar sönnur er það sem þarf til að gefa út næringarleiðbeiningar, en í þessu tilviki er skortur á viðeigandi sönnunum. Sem dæmi þá var niðurstaða Cochrane skýrslu að “ströng lækkun á saltinntöku leiddi einungis til lágmarks lækkunar á blóðþrýstingi í langtímatilraunum” [75]. Fleiri stórar rannsóknir hafa efast um langtímaáhrif þess að minnka neyslu á salti og hafa kallað eftir frekari rannsóknum til að meta áhrif þess. [76, 77].
Það er ekki að segja að það séu engar sönnur fyrir því að lækka inntöku salts, en augljóslega eru ekki sterkar sannanir fyrir lækkun á saltinntöku. Ef litið er á málið frá hinu stóru samhengi þá er spurning hver heilsufarslegi ávinningurinn sé að minnka neyslu salts á landsvísu. Lítið hlutfall af fólki hefur háan blóðþrýsting og þau eru, eða ættu að vera undir eftirliti læknis sem getur gefið næringarráðleggingar og viðeigandi lyfjameðferð.
Samantekt: hvað er til ráða?
Að lokum gefa höfundarnir álit sitt á ástandinu og hvaða leiðir væru best til þess fallnar til að bæta þetta ferli við að gefa út næringarleiðbeiningar fyrir almenning.
Það er einmitt af þessari ástæðu af hverju ég get ekki með góðri samvisku ráðlagt fólki að fylgja mataræðisleiðbeiningum Lýðheilsustöðvar. Þrátt fyrir að hið hefðbundna næringarbatterý segist að leiðbeiningar sínar séu byggðar á vísindalgum rökum þá er það einfaldlega ekki svo.
Það er ekki að segja að ég sé með öllu mótfallinn þeim ráðleggingum sem Lýðheilsustöð gefur út, t.d. finnst mér Geðorðin 10 sem Lýðheilsustöð gaf út alveg frábær og þau ættu að hanga upp á ísskáp á hverju íslensku heimili okkur til leiðbeiningar. Einnig eru mörg af þeim næringarráðleggingum sem Lýðheilsustöð gefur út mjög góð og viðeigandi og hægt er að lesa um álit mitt á því hér.
Enn eins og svo oft vill verða þá hefur næringarbatteríið ekki breytt ráðleggingum sínum, sem voru rangar í upphafi, í samræmi við vaxandi vísindalegri þekkingu á tengslum mataræði við sjúkdóma sem einmitt staðfesta að þörf er á stórfelldri breytingu á þeim ráðleggingum sem okkur eru gefnar.
Upphaf þessara ráðlegginga að við ættum að vera á mataræði sem er hátt í kolvetnum, lágt í fitu og þá sérstaklega dýrafitu og kólesteróli , hátt í trefjum og lágt salti var þvingað í gegn sem pólítísk ákvörðun af bandarískum þingmanni að nafni George McGovern í algjörri andstöðu við ráðleggingar vísindanefndarinnar sem hafði það hlutverk að ráðleggja honum. Enn þá daginn í dag er mikið af þeim næringarráðleggingum sem opinberar stofnanir og fagfólk gefa okkur upprunið frá pólitískum rótum sem stjórnað er af miklu leyti af iðnaði.
Fyrir þá sem nenna ekki að bíða eftir því að ég muni skrifa grein um það (sem ég mun gera fyrr en seinna) geta lesið bókina Food Politics: How the Food Industry Influences Nutrition and Health eftir Marion Nestle. En sú staðreynd að stór hluti af opinberum næringarráðleggingum verða til fyrir tilstilli þrýstihópa á vegum matariðnaðarins er ekki byggt á samsæriskenningum heldur er sorgleg staðreynd sem mikið hefur verið skrifað um.
Sem dæmi þá ætlaði WHO (Alþjóða heilbrigðisstofnunin) að leggja til nýjar ráðleggingar þar sem ráðlögð neysla á sykri yrði gerð mun harðorðaðri á þann veg að við ættum að minnka neyslu á honum eins mikið og mögulegt er. Gott ráð sem myndi verða okkur öllum til góða. En samtök sykurframleiðanda (The Sugar Association) var ekki á sama máli, og með gríðarlegum pólítískum og fjárhagsleg styrk sínum hótuðu þeir WHO að ef þeir myndu leggja fram þessar ráðleggingar þá myndu þeir koma því við að Bandaríkin myndu draga til baka fjárstuðning sinn til WHO (sem rekur sig á fjárstuðningi fjölda landa). Og í dag stöndum við uppi með þessa vitfirrtu ráðleggingu að allt að 10% af hitaeiningum okkar má koma frá viðbættum hreinum, hvítum sykri. Fyrir venjulegan mann á 2500 hitaeininga mataræði þá má hann innbyrða 62,5 grömm af sykri á dag sem myndi útleggjast sem tólf og hálf teskeið af sykri. Eru það ráðleggingar með heilbrigði okkar að leiðarljósi? Hvernig getur nokkur manneskja sem kallar sig fagaðila gefið út svona ráðleggingar með góðri samvisku, sérstaklega í ljósi þeirra rannsókna sem gefa til kynna hversu skaðleg áhrif sykurneysla er?
Á meðan opinberar næringarstofnanir og fagfólk helda sig við órökstuttar leiðbeiningar sem eru ekki í samræmi við þá vísindalegu þekkingu sem við höfum á næringu og mataræði í dag og gefa ekki út nýjar leiðbeiningar sem miðast að öllu leyti við hagsmuni fólksins en ekki til að verja fyrri ákvarðanir eða hagsmuna iðnaðarins þá tel ég þessar ráðleggingar ekki vera virði þess pappírs sem þær eru prentaðar á og get ekki mælt með þeim í heild sinni.