Liggur lausnin á heilsufarsvandanum í verkum Weston A. Price?

Það virðist vera að í hvert skipti sem umræðuefnið snýst um heilsu og sjúkdóma furðar fólk sig á því af hverju við nútímafólkið séum svona plöguð af sjúkdómum (þá er átt við hrörnunar/lífstílssjúkdóma) og almennri vanheilsu? Maður les í blöðum og fræðiritum að þessi og hinn sjúkdómurinn hafi aukist um X mörg prósent á fáum árum, börn fá sjúkdóma í auknum mæli sem einungis eldra fólk fékk hér áður og ef litið er á nánasta umhverfi þá kvartar fólk yfir almennri vanlíðan eins og orkuleysi, krónískum höfuðverkjum, meltingartruflunum, verkjum í líkama og andlegri deyfð.

Þetta ástand er greinilega staðreynd þar sem lyfjanotkun, læknismeðhöndlanir, hvort sem er hefðbundnar eða óhefðbundnar og fjárútlát til heilbrigðismála fer vaxandi með hverju ári. Vandamálið er svo stórt að því hefur verið varpað fram að með þessari aukningu í fjárútlátum til heilbrigðismála geti samfélög ekki staðið undir þeim í framtíðinni nema einhver lausn finnist.

Og þá er það stóra spurningin sem allir eru að spyrja ,,Hvernig getur það verið á okkar tímum þar sem við búum við allsnægtir, meiri tækni en við höfum nokkurn tíma haft yfir að ráða, umfangsmeira og tæknivæddara heilbrigðiskerfi, skjól og hiti telst til sjálfsagðra þæginda og líkamlegt erfiði telst til undantekninga, að við veikjumst sífellt meira?"

Þetta er einmitt spurningin sem drífur mig áfram í starfi og áhugamáli, ástæðan fyrir því að ég fór út að læra, hef keypt hátt í 300 bækur og 100 DVD um heilsutengd málefni, fer 2-3 sinnum á ári til útlanda á námskeið og ráðstefnur og eyði stærstum hluta frítíma míns í lestur á heilsutengdum málefnum. En er ég einhverju nær? Af öllu því efni sem ég hef farið yfir verð ég að segja að verk Weston A. Price standi upp úr þegar kemur að því að skýra af hverju svo er komið fyrir okkur eins og staðreyndin sýnir.

Í þessari stuttu grein ætla ég að kynna Weston A. Price og verk hans og enda síðan greinina með samantekt á niðurstöðum hans.

Tannlæknirinn Weston A. Price

Dr. Weston A. Price (1870-1948) var virtur tannlæknir frá Cleveland í Bandaríkjunum og hefur verið kallaður ,,Charles Darwin næringarfræðarinnar". Hann var yfir rannsóknarsviði Tannlæknafélags Bandaríkjanna, samdi kennslubækur í tannlækningum og birti fjölda vísindagreina í fagtímaritum.

Sem tannlæknir furðaði Weston A. Price sig á því af hverju tannheilsa ungra barna færi svo hratt versnandi. Í starfi var hann að sjá skemmdir og skakkar tennur í mun meira mæli en hann hafði séð hjá foreldrum barnanna. Það eina sem hafði breyst til muna í umhverfinu var maturinn sem Dr. Price grunaði að væri ástæðan fyrir þessari breytingu. Hann hafði heyrt af og lesið um frumstæð samfélög þar sem fólk hafði beinar, fallegar og heilbrigðar tennur þrátt fyrir að hafa engan aðgang að tannlæknaþjónustu.

Til að komast að svarinu af hverju tannheilsa ungra viðskiptavina hans færi versnandi ákvað hann að bera saman lifnaðarhætti ósnortinna frumstæðra samfélaga við nálæg samfélög sem lifðu á vestrænum mat til að vita hvort lausnina væri þar að finna. Dr. Price hóf ferðalag sitt rétt um 1930, sem var fullkominn tími til rannsókna sem þessara. Samgöngur voru orðnar almennar og vestræn áhrif höfðu dreifst vítt og breitt um heiminn ásamt vestrænni matarmenningu (sem sumir myndu vilja kalla ómenningu). Enn voru til staðar samfélög ósnortin af vestrænum áhrifum sem lifðu í nálægð við samfélög sem höfðu tekið upp neysluvenjur vestrænna búa og að lokum var ljósmyndun orðin tiltölulega almenn svo hægt væri að skrásetja það sem fyrir augun bar.

Skapaði þetta aðstæður til að bera saman náskylt fólk á hefðbundnu fæði og vestrænu fæði og þau áhrif sem þessi umskipti höfðu á fólkið. Það sem hann sá á ferðalagi sínu fékk hann til að trúa að hrörnunarsjúkdómar, tannskemmdir og skakkar tennur væru einungis einkenni líkamlegrar hrörnunar, upprunnin frá því sem hann hafði grunað - næringarskorti.

Price ferðaðist vítt og breitt um heiminn til að rannsaka einangruð samfélög, meðal annars einangruð þorp í Sviss, keltnesk samfélög á Suðureyjum í Skotlandi, Eskimóa og Indíána Norður-Ameríku, Melanesíu- og Pólýnesíubúa frá Kyrrahafs eyjaklösunum, þjóðbjálka Afríku, ástralska frumbyggja, Maóra Nýja Sjálands og Indjána Suður Ameríku. Eyddi hann mörgum vikum í hverju samfélagi og gerði heilsufarsathuganir á íbúum þess auk þess að rannsaka matarmenningu þeirra.

Sendi hann á ferðalögum sínum yfir tíu þúsund matarprufur til Bandaríkjanna í efnarannsóknir til að komast að samsetningu frumstæðrar fæðu sem fólk notaði til að viðhalda nánast fullkominni heilsu.

Ferðalög Weston A. Price

Það áhugaverðasta við að lesa um Weston A. Price eru lýsingar hans á heimsóknum til frumstæðra samfélaga og hvernig fólk lifði. Eitt af því stórkostlegasta við þessar lýsingar er hversu mikla virðingu og þekkingu þetta fólk hafði á næringu og með þekkingu er átt við að þau vissu hvaða áhrif mismunandi matur hafði á heilbrigði þeirra.

Alls staðar spilaði matur stórt hlutverk í lífi fólks (enda ekki hægt að rjúka á KFC til að redda mat hið snarasta) og foreldrar sáu það sem sitt hlutverk að koma þessari þekkingu áfram til barna sinna. Þegar Weston A. Price spurði fólk úr mismunandi samfélögum af hverju þau leggðu svona mikinn metnað í matargerðina var svarið nánast alls staðar það sama ,,til að tryggja heilbrigði okkar og komandi kynslóða".

Þegar Weston A. Price kom á nýjan stað, fékk hann leyfi frá hæstráðendum þorpsins til að skoða íbúana. Í einfaldri röð skoðaði hann hvern og einn íbúa. Að meðaltali fann hann tannskemmd í einni af hverjum hundrað tönnum sem hann skoðaði og allar tennur voru beinar og fólk var með breiða tanngóma. Það kom fyrir að hann skoðaði heilu þorpin án þess að finna svo mikið sem eina tannskemmd. Þegar hann skoðaði fólk sem bjó í nærliggjandi bæjum þar sem vestræn menning og mataræði var ráðandi var ástandið ekki svona gott. Fólkið sem hafði flutt í vestrænu bæina var þjakað af tannskemmdum og það sem var merkilegra var að Dr. Price tók eftir skýru samhengi á því að það voru afkvæmi þeirra sem höfðu flutt í þorpin og lifað á vestrænu fæði sem fengu skakkar tennur og tanngómurinn varð þrengri.

Þetta er merkilegt fyrir þær sakir að þetta er vísbending um að óheilsusamlegt líferni foreldra gefi af sér verri gen fyrir afkvæmin. Þetta er nokkuð sem fleiri fræðimenn hafa rannsakað og skrifað um. Fyrir þá sem hafa áhuga á þessu viðfangsefni bendi ég t.d. á verk Francis Pottinger og frægu kattartilrauna hans eða að lesa sig til um epigenetics.

Þegar Weston A. Price bjó hjá Inúítum í Kanada tók hann viðtal við lækninn Dr. Romig sem hafði verið skipaður læknir Inúítana á þessu svæði í 35 ár. Hann sagði að á þeim tíma hefði hann aldrei séð neina hrörnunarsjúkdóma, nema eftir að Inúítarnir hófu að borða hveiti, þá byrjuðu þeir að fá sömu sjúkdóma og við sjáum ráðandi í vestrænum samfélögum. Það ráð sem dr. Romig notaði óspart var að senda þá sem voru veikir (t.d. af berklum) í þorpin sem voru norðarlega í Kanada þar sem mataræðið hafði haldist óbreytt (þeir voru einangraðri) og í flestum tilvikum kom fólkið til baka heilt heilsu.

Það furðulegasta er að þrátt fyrir að mataræði hafi verið mismunandi milli samfélaga á þeim stöðum í heiminum sem Weston A. Price heimsótti, þá voru ákveðnir þættir sem voru gjarnan sameiginlegir með þeim þrátt fyrir að engin samskipti væru þeirra á milli. Til dæmis undirbjuggu öll samfélögin korn með því annað hvort að láta það spíra, gerja eða bleyta það fyrir notkun, án þessa undirbúnings litu þau ekki við korni. Ástralíu frumbyggjarnir tóku til dæmis korn og settu í taupoka sem síðan var lagður í bleyti úti í á og tóku þeir hann svo upp nokkrum dögum síðar þegar kornið var farið að spíra.

Í dag vitum við að þessar aðferðir auka næringargildi kornsins og ýmis andnæringarefni sem hafa neikvæð áhrif á starfsemi líkama okkar brotna niður í þeim, enda ekki að ástæðulausu að fjölda bóka hafa verið skrifaðar um ókosti kornmetis sem fæðu.

Efnagreiningar Dr. Price á fæðu einangraðra frumbyggja sýndu að í samanburði við amerískt mataræði á dögum Price (hér átt við milli 1930 og 1940 og hefur það versnað síðan þá), þá innihélt það a.m.k. fjórum sinnum meira af vatnsleysanlegu vítamínunum, kalki og öðrum steinefnum og a.m.k. TÍU sinnum meira magn af fituleysanlegu vítamínunum frá dýraafurðum eins og smjöri, hrognum, skelfisk og innmat.

Mikilvægi góðrar næringar fyrir barnshafandi konur hefur lengi verið þekkt, en rannsóknir Dr. Price sýndu að frumbyggjarnir skildu og ástunduðu sérstakt mataræði fyrir getnað sem gilti jafnt fyrir báða verðandi foreldra. Margir þjóðbálkar fóru fram á að sérstakt mataræði yrði ástundað fyrir getnað og ætlast var til að góður tími liði milli barna svo að móðirin gæti haldið fullri heilsu og styrk og með því móti tryggt heilbrigði framtíðar barna. Sérstakur matur var oft gefinn ófrískum og mjólkandi konum, sem og strákum og stelpum á uppvaxtarárunum til að undirbúa þau fyrir foreldrahlutverkið. Frumbyggjar trúðu á að hámarks heilbrigði væri réttur hvers barns.

Þessir frumbyggjar með sína stæltu líkama, frjósemi, andlega jafnvægi og frelsi frá hrörnunarsjúkdómum eru í algjörri andstæðu við okkur sem lifum á næringarsnauðu vestrænu mataræði, sykri, hvítu hveiti, gerilsneyddri mjólk og pakkamat með rotvarnar- og aukaefnum. Samantekt á frumstæðu mataræði Hér fyrir neðan eru þau atriði sem voru sameiginleg með því ósnortna, frumstæða mataræði sem dr. Price skoðaði.

Samantekt á frumstæðu mataræði

  1. Mataræði heilbrigðs, frumstæðs og óiðnvædds fólks inniheldur ekki unna né ónáttúrlega fæðu eins og unnin s.s. sykur, hvítt hveiti, dósamat, gerilsneydda og fitusprengda létt- eða nýmjólk, unnar eða hertar jurtaolíur, próteinduft (og soja), tilbúin vítamín eða eitruð auka- og litarefni.
  2. Öll frumstæð samfélög neyta í einhverju formi dýrapróteina og fitu úr fiski og öðru sjávarfangi, vatns- og landfuglum, landdýrum, eggjum, mjólk og mjólkurafurðum, skriðdýrum og skordýrum.
  3. Frumstætt mataræði inniheldur að minnsta kosti fjórum sinnum meira magn af vatnsleysanlegum vítamínum, kalki og öðrum steinefnum og TÍU sinnum meira af fituleysanlegum vítamínum frá dýrafitu (vítamín A, vítamín D og Price þættinum (The Price Factor, sem haldið er í dag sé K vítamín)) í samanburði við meðal amerískt mataræði á tímum dr. Price.
  4. Í öllum frumstæðum samfélögum voru einhverjar dýraafurðir borðaðar hráar.
  5. Frumstætt mataræði er ríkt í fæðuensímum úr ógerilsneyddum mjólkurafurðum, hráu kjöti og fiski, óunnu hunangi, hitabeltisávöxtum, kaldpressuðum olíum, víni og ógerilsneyddum bjór og náttúrulega geymdu mjólkursýrugerjuðu grænmeti, ávöxtum, drykkjum, kjöti og kryddum.
  6. Fræ, korn og hnetur eru bleyttar, spíraðar, gerjaðar eða náttúrulega látnar brotna niður til að hlutleysa andnæringarefni sem þau innihalda frá náttúrunnar hendi. Andnæringarefni eru efni sem hafa neikvæð áhrif á starfsemi líkama og dæmi um þau er t.d. phyticsýra, ensímablokkarar og tannín.
  7. Heildarfituinnihald frumstæðs mataræðis er á bilinu 30% til 80%, en einungis um 4% af hitaeiningunum koma frá fjölómettuðum olíum sem koma úr korni, belgávöxtum, hnetum, fiski, dýrafitu og grænmeti. Meginhluti hitaeininga af fitu kemur úr mettuðum og einómettuðum fitusýrum.
  8. Frumstætt mataræði inniheldur nokkuð jafnt hlutfall af ómega-3 og ómega-6 lífsnauðsynlegu fitusýrunum.
  9. Allt frumstætt mataræði innihélt salt í einhverju formi.
  10. Frumstæð samfélög borðuðu dýrabein, vanalega sem gelatín ríkt beinasoð.

Eins og sjá má eru mörg (ef ekki flest) þau atriða hér að ofan í andstæðu við þær ráðleggingar sem okkur er gefið og það neyslumynstur sem er ráðandi hjá okkur. Það er kannski ekki furða að ástandið á okkur er eins og það er.

Uppgötvanir og niðurstaða Dr. Price eru kynntar í bókinni hans Nutrition and Physical Degeneration. Bókin inniheldur sláandi myndir af myndarlegum og heilbrigðum frumbyggjum og sýnir á ógleymanlegan máta líkamshrörnunina sem verður að staðreynd þegar fólk yfirgefur hefðbundið mataræði fyrir vestrænt nútíma mataræði.

Að lokum

Kynni mín af verkum Weston A. Price hefur sýnt mér fram á nokkra mikilvæga hluti. Hvað við erum langt frá því að borða náttúrulegan heilsusamlegan mat og það sem verra er, hvað við erum langt frá því að hafa tilfinningu fyrir því hvað er gott fyrir okkur, bera virðingu fyrir næringarríkum mat og hafa vit á því að forðast það sem er ekki heilsusamlegt fyrir okkur. Sem foreldrar höfum við gleymt einu af okkar stærstu hlutverkum sem er að kenna börnum okkar að matur er til að næra sig á, hvaða matur er góður fyrir okkur og hvernig við eigum að bregðast við þegar við veikjumst.

Og að lokum að það er ekkert eitt til sem heitir ,,besta mataræðið". Fólk hefur lifað heilbrigðu lífi á mismunandi mataræði svo lengi sem það fer eftir ákveðnum grundvallaratriðum. Það sorglega við þetta er að flest þau ráð sem við fáum frá hinu opinbera eru ekki í samræmi við niðurstöður Weston A. Price og oftar en ekki eru þau andstæðan við þau.

Nú á okkar tímum þegar heilbrigði okkar sem þjóðar fer hrörnandi og það er augljóst að núverandi heilbrigðisstefna sem samanstendur af lyfjalausnum, uppskurðum og mataræðisráðgjöf sem er hliðholl unnum matvörum er ekki að sporna við þessari þróun þá virðist næsta útspil þess vera á þann veg aðfjarlægjast náttúrlegar lausnir enn frekar með genabreytingum og genalækningum. Ef náttúran hagar sér ekki eins og við viljum þá skal henni breytt. Ég hugsa með hryllingi til þess hvaða afleiðingar þetta getur haft í för með sér.

Sem betur fer er sá hópur stækkandi sem gerir sér grein fyrir að virðing fyrir náttúrulegum lausnum er leið okkar út úr þessum hremmingum. Vonandi finnum við lausn á þessu vandamáli áður en skaðinn verður óbætanlegur.

Vefsíða Weston A. Price samtakana er www.westonaprice.org

Vefsíða Price-Pottinger Nutrition Foundation er www.ppnf.org