Í gær, sunnudag, birti Steinar Aðalbjörnsson næringafræðingur gagnrýni á nýju LKL bók Gunnars Más. Ég skrifaði samdægurs gagnrýni inn á vefsíðu Steinars sem hann hafði ekki dug til að birta. Hér er athugasemdir mínar sem hann þorði ekki að birta.
Einnig setti ég inn athugasemd inn á Facebook hvort hann ætlaði ekki að birta athugasemdir mínar, en þær voru fljótlega fjarlægðar og ég blokkaður út.
Þetta kemur mér ekki á óvart því þeir næringafræðingar sem ég hef rökrætt við hafa ekki getað svarað mér málefnalega og þykir mér ekki skrítið að þeir forðist að rökræða við mig þar sem þeir neyðast ávallt á endanum að færa sig yfir í tilfinningaleg rök og réttlæta þau með þeim menntahroka að ég sé ekki menntaður næringafræðingur.
Greinina hans Steinars má finna hér, ásamt þeim athugasemdum sem birtar hafa verið.
Lágkolvetna mataræðið: Til hvers?!
Ég tek fram að það er lítið gagn að lesa greinina mína án þess að lesa upprunalegu greinina hans Steinar til að setja svarið mitt í samhengi.
Fyrsta athugasemd við grein
Það virðist engan endir ætla að taka hvernig þú ferð með rangindi um lágkolvetnamataræði til að þóknast þínum eigin réttrúnaðarhugmyndum um yfirburði hins opinbera hákolvetna-lágfitumataræðis. Og ekki ætlar menntahroki þinn heldur að fara minnkandi, heldur virðist hann fara vaxandi með hverri grein sem þú sleppir frá þér.
Í fyrsta lagi eru flestir stærstu talsmenn lágkolvetnamataræðis fagfólk sem hefur sérhæfða menntun til að rökstyðja af hverju það finnst lágkolvetnamataræði vera ákjósanlegri kostur, annað hvort fyrir sérhæfða hópa eða fyrir almenning.
Tökum nokkur dæmi um talsmenn lágkolvetnamataræðis:
Hin vel þekkti Atkins var læknir að mennt og studdist ríkulega við rannsóknir síns tíma til að rökstyðja kosti lágkolvetnamataræðis, sérstaklega þá fyrir offitu og hjartasjúkdóma.
Höfundar bókarinnar Life without bread, Wolfgang Lutz og Christian B. Allan, eru læknir og vísindamaður sem hafa sérhæft sig í tugi ára á rannsóknum og klínískri notkun á lágkolvetnamtaræði. Þeir eru taldir vera, ásamt Atkin, einir af upphafsmönnum nútíma lágkolvetnamataræðis.
Höfundur The Zone er Barry Sears, rannsóknarvísindamaður með sérhæfingu á sviði fitusýra.
Höfundar Protein Power, Eades hjónin, eru læknar sem eru með sérhæfingu m.a. á efnaskipta- og næringarsviði og hafa skrifað 14 bækur um næringartengd málefni.
Jeff Volek og Stephes Phinney skrifuðu bókina The Art and science of low carbohydrate living. Báðir eru með doktorsgráður, annar á sviði næringar og hinn í læknisfræði og hafa báðir sérhæft sig í rannsóknum og notkun á lágkolvetnamataræðum til tugi ára.
Loren Cordain, helsti talsmaður steinaldarmataræðisins er með doktorsgráðu í heilsufræðum og er prófessor við Coloradoháskólann. Hann er talinn vera einn fremsti sérfræðingur í heiminum á sviði þróunnar næringu og sjúkdóma í mannfólki.
Af öllum þessum bókum þá mæli ég með að þú lesir bókina The Art and science of low carbohydrate living því hún er vísindalega vel skrifuð og vel heimilduð. Þú hefðir gott af því það er svo auðsjánlegt þegar þú tjáir þig um lágkolvetnamataræði hversu þekkingarlítill þú ert á þessu sviði og það er ekki viðeigandi að maður sem er að gagnrýna eitthvað hafi ekki kynnt sér báðar hliðar málsins, skiptir ekki máli hvort viðkomandi er fræðingur, né á hvaða sviði.
Þannig ekki segja aftur að þetta mataræði er bara eitthvað sem er haldið uppi af fáfróðu fólki sem hefur ekki hundsvit á þessu. Það er bara ekki rétt og er reyndar svo hræðilega vitlaust að það er augljóst að þetta er bara gert í þeim tilgangi að styðja málstað þinn með rangfærslu.
Þér finnst greinilega ekkert af því að fólk tjái sig um næringu, bara svo lengi sem það segir sé í samræmi við opinberar ráðleggingar. Til dæmis hef ég ekki séð þig gagnrýna Ágústu Johnsen fyrir hennar reglulegu næringarskrif þrátt fyrir að hún sé algjörlega ómenntuð á þessu sviði. Af hverju má hún tjá sig um svona opinberlega um næringu þrátt fyrir skort á menntun á þessu sviði? Er það kannski bara útaf því að hún, eins og góðum næringarfræðing sæmir, skrifar í samræmi við opinberar ráðleggingar sem þér þóknast vel!
Svo ert þú sjálfur greinilega ekki laus við að vita betur en þeir sem eru þér betur og meira viðeigandi menntaðir. Þú segir í nýlegu fréttaviðtali eftir hjartaáfall þitt að þú rengir lækna fyrir að viðurkenna ekki að krabbamein þitt í eistum (vonandi man ég rétt eftir staðreyndum hér) hafi verið orsakað af því að þú hafir fengið bolta af miklu afli í punginn sem hafi bólgnað mikið í kjölfarið. Þá spyr ég þig, hvar færð þú vísindalegar heimildir þínar fyrir því að eistnakrabbamein geti hlotist af því að fá bolta í punginn? Af hverju ert þú næringarfræðingur með meiri og betri vitneskju en þetta en læknar á þessu sviði? Eru til rannsóknir sem sýna fram á aukna tíðin eistnakrabbameins við að fá bolta í punginn? Og hvaða menntun hefur þú að tjá þig um þetta opinberlega? Ekki það að ég persónulega sé ekkert rangt við að þú hafir sagt þetta, enda er ég ekki þungt haldinn af menntahroka.
Ég held að það sé viðeigandi að vitna í setningu sem ég man ekki frá hverjum kemur og hún segir að það eru 3 hlutir sem allir muni hafa álit á og telja sig sérfræðing í og það er á sviði trúmála, stjórnmála og næringu. Hvernig sem þú Steinar reynir að halda því fram að einungis næringarfræðingar megi opinbera álit sitt á næringu (nema auðvitað þeir sem eru sammála þér í einu og öllu eru undanskildir) þá eru það bara svo að þannig verður það aldrei. Næring er ein af grundvallaratriðum í lífi okkar og allir hafa álit hvað er rétt og rangt að borða. Sumir tjá sig ekki um það, aðrir blaðra um það á mannamótum og í góðra vina hópi á meðan aðrir tjá sig um það opinberlega, vissulega mis fagmannlega. Gott dæmi um það er þegar Ólafur Sæmundsson í blaðagrein fyrir nokkru síðan gagnrýndi að steinaldarmataræðið væri eitt af verstu mataræðunum og vitnaði svo í blaðaúttekt á mataræðum eins og um vísindalega grein hafi verið að ræða. Finnst þér það ekki ófagmannlegt? Og í kjölfarið, þegar ég kem með 5 birtar rannsóknir um kosti steinaldarmataræðis og bið um vísindalegar rannsóknir sem mótrök við þeim þá gat hann það ekki. Finnst þér það ekki til skammar? Eða kannski var hluti af næringarfræðingsgráðunni að maður veit betur en allir þegar kemur að næringu og maður getur sagt hverja vitleysuna á fætur annari og maður þarf ekki rökstyðja þær heldur duga tilfinningaleg rök í krafti gráðunnar?
Ef þú ert svona mikill fræðimaður, hvernig væri þá að þú myndir einu sinni beita fyrir þér rannsóknum þegar þú ert að orðhöggvast við fólk á netinu.
Eins mikið og ég fagna því að þú bendir á að mjög lág kolvetnamataræði geti hjálpað með hjartasjúkdóma og að einföld kolvetni séu líklegast þar sökudólgur, þá hefði nú verið gaman að þú hefðir nú einnig bætt við að þetta mataræði hefur meira að segja sterkari grunn fyrir að vera hjálpa gegn sykursýki og líklegast efnaskiptaheilkenni. Og meira að segja strangt til tekið er það ekki rétt að segja að lágkolvetnamataræði hjálpi með hjartasjúkdóma, heldur að það bæti flest mæligildi hjartasjúkdóma á betri veg. Hvort það hjálpi á svo eftir að staðfesta með rannsóknum. Ekki það að ég mæli ekki með við nokkurn mann að fylgja hinu opinbera mataræði fyrir hjartasjúkdóma sem kemur verri út en lágkolvetnamataræði á nánast öllum sviðum.
Eitt af mest klassísku rökum hjá þeim sem tala gegn lágkolvetnamataræði er að segja að talsmenn lágkolvetnamataræða tali á móti kolvetnum og að þeir vilji útiloka kolvetni. Það er alls ekki rétt, og hefur bara þann tilgang að ýkja umræðuna til að skekkja hana. Í dag tala nánast allir talsmenn lágkolvetnafæðis um gæði kolvetna og að það þurfi að lækka hlutfall slæmra kolvetna (einfaldra og unnina). Gjarnan tala þeir um að leggja áherslu á kolvetni með lágum sykurstuðli. Áhersla skuli vera lögð sérstaklega á grænmeti og þar á eftir grófmeti og ávexti. Í dag eru alltaf að koma skýrari vísbendingar að við fólkið þolum kolvetni misjafnlega vel og þeir sem þola það síður skuli leggja áherslu á grænmetið, og grófmetið og ávextirnir þá fara niður á kostnað þess. Einnig eru stundum ávextirnir settir tímabundið niður hjá þeim sem eru að leggja áherslu á grenningu. Hvernig það er slæmt að mæla á móti þessum einföldu, unnu kolvetnum skil ég ekki, en á sama tíma er óþarfi að mæla á móti með öllu gegn ávöxtum. Mitt persónulega álit á neyslu ávaxta kemur ekki að fullu fram hérna.
Eitt í lokin. Ég trúi varla að þú skulir vera enn að hjakkast í sama farinu að reyna að sannfæra lesendur um að grenning sé bara spurning um hitaeiningar inn (matur) og hitaeiningar út (hreyfing). Þó það sé hluti af lausninni þá er það svo mikil einföldun á vandamálinu að ein og sér sem útskýring er hún röng. Hvað þarf eiginlega að birta margar rannsóknir þar sem niðurstöðurnar sýna t.d. að lágkolvetnamataræði þar sem engin takmörk eru sett á inntöku hitaeininga hafa unnið lágfitumataræði þar sem takmörk eru sett á inntöku hitaeininga? Og í sumum tilfellum hafa þeir sem hafa lést meira innbyrgt fleiri hitaeiningar en þeir sem léttust minna. Hvernig útskýrir þú það með hitaeiningakenningu þinni? (law of thermodynamics). Ég hélt meira að segja að hefðbundin næringarfræði væri farin að viðurkenna að hitaeining er ekki bara hitaeining!
Ef þú trúir ekki að það skiptir máli, af hverju í einni grein frá þér setur þú kolvetni niður í 40% þegar kemur að grenningu? Af hverju mega þau ekki vera bara á sínum venjulega stað, þarna rétt við 50-60% ef þau skipta ekki máli?
En ég segi bara í lokin Steinar, farðu og lestu nú einu sinni eina góða bók um þetta málefni áður en þú tjáir þig um þetta aftur. Fáfræði þín á þessu sviði skín svo í gegn að þú myndir gera sjálfum þér greiða með því.
Kv.
Halli Magg
ps. Ég hef ekki lesið LKL bók Gunnars og hvorki mæli með eða á móti henni. Ég er sammála þér að það er ekki hægt að kenna opinbera um gróflega misgáfulegt val neytanda á næringu, en hvert opinberar ráðleggingar leiðbeina fólki er önnur umræða.
Það skal tekið fram hér að Steinar svaraði einum lesenda af mörgum sem sendu inn athugasemdir inn á Facebooksíðu hans hvort hann ætlar ekki að birta athugasemdir mínar að honum fyndist ég hafa vegið að honum persónulega fyrir að hafa dregið veikindi hans inn í þetta. Við því hef ég þetta að segja. Ég vitna í opinbera blaðaviðtal við Steinar sjálfan þar sem hann af fúsum og frjálsum vilja segir frá veikindum sínum og ég geri á engan hátt lítið úr þeim. Mín athugasemd nær eingöngu til þess af hverju hann má hafa álit á og vita betur en fagmaður sem er sérmenntaður í sínu fagi (í þessu tilviki, læknir) en fólk ómenntað í næringafræði má ekki hafa opinberlega álit á næringu? Eins og augljóslega sést set ég ekkert út á veikindi hans heldur hið hrokafulla viðhorf að aðrir mega ekki það sem hann gerir sjálfur. Er ég að setja eitthvað meira út á Steinar, en Steinar gerir við Gunnar Má persónulega, sem hann segir að sé að draga fólk á asnaeyrunum og ala á fáfræði með bók sinni? Mér þykir þetta nú ansi hörð og ljót orð að Gunnari persónulega.
Ef það er á einhvern máta hægt að misskilja þetta sem áras á veikindi hans þá biðst ég vissulega innilegrar afsökunar á því, enda var það aldrei meiningin. Persónulega held ég frekar að Steinar hafi notað þetta sem afsökun til að birta ekki athugsemdir mínar, enda vandræðalegt fyrir hann að vera skákaður svona augljóslega á eigin vefsíðu.
Athugasemd Númer 2
Vill taka það fram ég var ekki búinn að lesa innsendar athugasemdir þegar ég póstaði minni athugasemd. Ég sá nýjar athugasemdir eftir að ég “refreshaði” gluggann minn, fyrir það var ekki búið að pósta neinum athugasemdum.
Athugasemd númer 3
He he he he. Nú eftir að lesa athugsemdirnar þá verð ég að pósta einni athugsemd í viðbót til að gagnrýna líklegasta allra mestu viteysuna.
Steinar segir
//
Þannig að það komi skýrt fram þá er ég alls ekki á móti lágkolvetna mataræði svo framarlega að það sé LÁGkolvetna og ekki ÁN kolvetna.
//
Bíddu! Erum við að tala um lágkolvetnamataræði eða ekkert-kolvetna-mataræði? Umræðan hér er greinilega um lágkolvetnamataræði þar sem bókin hans Gunnars er um lágkolvetnamataræði. Ég væri alveg til að fá að sjá frá þér tilvitnun í einhverja bók, eða vefsíðu um lágkolvetnamataræði þar sem sagt er að útiloka ÖLL kolvetni. Það er til mataræði eins og ketógenísk mataræði sem taka út öll kolvetni, en þá erum við að tala um allt annað, sem var aldrei í umræðunni hér.
En fyrst að þú ert allt í einu orðinn ekki á móti lágkolvetnamataræði (þrátt fyrir að netið er fullt af tilvitnunum þar sem þú ert á móti því) þá býð ég þér velkominn í hópinn!
Reyndar skil ég þá ekki hvað þú ert að gagnrýna hann Gunnar fyrst að þið eruð þá sammála að flestu leyti nema banana eða tvo. Gunnar vill lækka kolvetni til ná niður offitu, sem vill þú. Má hann ekki græða á því að skrifa bók?
Athugasemd númer 4
Finnst viðeigandi í ljósi þessarar umræðu að pósta spakmæli frá honum Arthur Schopenhauer
"All truth passes through three stages. First, it is ridiculed. Second, it is violently opposed. Third, it is accepted as being self-evident."
Myndi segja að þú væri kominn upp í 2,5 :-)
Eftirmáli
Eins og sjá má á ofanverðum athugasemdum og þeim athugasemdum sem birtust á vefsíðu hans þá allt í einu er Steinar ekki á móti lágkolvetnamataræði og allir öfgarnir hans Gunnars með LKL snúast um nokkra ávexti á dag sem þeir eru ósammála um.
Síðan að lokum leiðrétti ég Steinar í einu grundvallaratriði er varðar lágkolvetnamataræði sem hann virðist ekki vita af þegar hann kvartar yfir því að ekki hafi verið sett inn hversu mikið magn má borða af einu LKL snakki sem póstað er á netinu. Hann segir:
“Gerði ekki aths. við uppskriftina hjá þér sem slíka heldur að þú segir ekki frá magni. Er í lagi að borða eins mikið og maður vill af þessu sælgæti eins og flestu sem LKL aðdáendur borða?”
Sem ég svaraði, og fékk ekki birt!
“Málið er, ef þú myndir kynna þér fræðin á bakvið LKL, að með því að borða prótein- og fituríkari fæði þá virkjum við betur seddustöðvar líkamans og þar af leiðandi þurfum ekki að telja hitaeiningar heldur munum við stilla okkur sjálfkrafa betur í hóf þar sem líkaminn stöðvar okkur eins og honum ber að gera.”
Því miður er þetta enn eitt skiptið sem næringafræðingur veður uppi í fáfræði sinni og gagnrýnir fólk sem er einungis að gera góða hluti. Á endanum ég skil ekkert í gagnrýni hans þar sem hann virðist vera sammála Gunnari fyrir utan einn banana og eitt epli á dag eða svo og kallar það öfga. Furðulegir starfshættir vægast sagt.