Geta skór gefið okkur stæltari rass og læri?

Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum, a.m.k. ekki húsbónda heimilins, auglýsingarnar af þéttum rössum sem spígspora og dilla sér á skjánum. Þarna er verið að auglýsa skó sem eiga að stæla rass og læri með því einungis að labba í þeim. Er núna loksins hægt að segja upp áskriftinni hjá líkamsræktarstöðinni og spígspora bara um heima hjá sér í Reebok EasyTone skóm og uppskera Levis kúlurass fyrir vikið? Halli Magg athugar málið.

Í dag er hægt að kaupa hér á landi 3 mismunandi tegundir af skóm sem hafa það sameiginlegt að segjast styrka líkamann og/eða bæta líkamsstöðu með því einu saman að ganga í skónum. Þessi áhrif eiga að nást með því að skórnir eru ekki með flatan botn heldur eru sólarnir ávalir, sem veldur ójafnvægi á fótum og því þarf notandinn að auka vöðvanotkun til að finna og halda jafnvægi á skónum og í kjölfarið veldur þessi auka vöðvanotkun auknum bruna. OK, þetta er rökrétt og trúanlegt og einnig þessu til stuðnings benda framleiðundirnar á rannsóknir til sönnunar á eigin staðhæfingum.

Hér á landi er hægt að kaupa 3 skótegundir sem fall a undir þessa jafnvægisskó, þeir eru MBT (Masai Barefoot Technology), Shape-Ups frá Sketcher og EasyTone frá Rebook. Þessir skór kosta á bilinu 20 til tæplega 40 þúsund út úr búð.

En er eitthvað til í staðhæfingum þessa framleiðenda að með því einu saman að labba í þessum skóm þá eykst vöðvanotkun, vöðvarnir stælast í framhaldi og þú brennur meira? Framleiðendurnir vitna í rannsóknir sem segja t.d. “11% meira álag á aftan á læri og kálfa. Og tónar rassvöðvana 28% meira en venjulegir skór einungis við að labba”. Vandamálið við þessar rannsóknir er að þær eru gerðar eða kostaðar af sömu fyrirtækjunum og selja skóna og það ætti að vera orðið almenn vitneskja að það boðar ekki á gott. Auðvelt er að setja upp rannsóknir til að fá fyrirfram pantaðar niðurstöður eða setja niðurstöðurnar fram sér í vil.

Ég sem osteópati hef talað við fjölda manns sem hefur notað MBT skó með mismunandi árangri og hef verið beðinn um að koma á kynningu fyrir skóm sem þessum. Ég hef aldrei viljað gefa út mitt álit á þessum jafnvægisskóm fyrr en ég myndi finna hlutlausa rannsókn á áhrifum jafnvægisskóa á vöðvanotkun og álag á líkama. Og loksins fann ég hana.

Rannsóknin var framkvæmd af æfinga- og lýðheilsudeildinni hjá Háskólanum í Wisconsin, La Crosse undir stjórn doktor John Porcari og var hún kostuð af American Council on Exercise. Þeir framkvæmdu tvær rannsóknir, önnur var sett upp til að bera saman æfingarálagið á þessum jafnvægisskóm við venjulega íþróttaskó, á meðan hin bar saman vöðvanotkun nokkurra lykilvöðva. Við skulum líta nánar á þessar rannsóknir og hver niðurstaða þeirra var.

Til að mæla æfingarálag voru 12 konur á aldrinum 19 til 24 ára fengnar til að labba endurtekið á hlaupabretti í 5 mínútur í hverjum skóm við mismunandi hraða og halla brettis á meðan súrefnisnotkun, hjartsláttur, huglægt æfingarálag og hitaeininganotkun var mæld. Niðurstaðan var sú að enginn tölfræðilegur munur er á jafnvægisskóm og venjulegum hlaupaskóm þegar kemur að æfingarálagi. Með öðrum orðum þú brennur ekki meira að labba um á jafnvægisskóm.

Í hinni rannsókninni var fenginn nýr hópur af 12 konum á aldrinum 21 til 27 ára til að labba eins og áður endurtekið í 5 mínútur á bretti við mismunandi hraða og halla í mismunandi skóm. Á sama tíma voru settir vöðvanemar á kálfa, aftan á læri, framan á læri, rass, kvið og mjóbak til að mæla vöðvavirkni á meðan konurnar löbbuðu í hverjum skó. Niðurstöðurnar voru sömu og í fyrri tilrauninni, það var smávægilegur munur á milli skóa, stundum íþróttaskónum í vil og stundum jafnvægisskónum, en í heildina var engin tölfræðilegur munur á milli jafnvægisskóa og venjulegra íþróttskóa.

Þannig að niðurstaðan er, það er peningasóun að kaupa þessa skó ef takmarkið er að grenna sig eða stæla vöðva. Þá gera venjulegir skór sama gagn.

En hvað með þetta fólk sem fær harðsperrur þegar það byrjar að nota svona skó? Það ætti að vera dæmi um að skórnir eru virka eitthvað? Eins og sagt er að ofan þá þarf notandinn að finna jafnvægi á skónum og þannig breyta skórnir vöðvanotkun. Þegar fólk notar vöðva sem það hefur ekki notað mikið áður eru nokkuð miklar líkur á að það fær harðsperrur og í kjölfarið aðlagast líkaminn álaginu og harðsperrurnar hætta. Þetta mun ekki leiða til framtíðar bætingar (grenningar eða vöðvastælingar), líkaminn mun aðlagast þessu á skömmum tíma.

Mitt álit á þessu er að fólk á ekki að kaupa þessa skó til að grennast eða stæla vöðva, enda eru litlar líkur að þeir geti það. Ekki falla fyrir auglýsingum sem lofa miklum árangri með nánast engri æfingu, eins og hér að taka til heima í Reebok EasyTone skóm. Einnig hef ég áhyggjur ef fólk er í þessum skóm allan daginn til að grenna sig þar sem ég kýs að við löbbum berfætt eins stóran hluta af deginum og mögulegt er til að þjálfa fæturna í sínu náttúrulega umhverfi.

Ef fólki finnst betra að ganga í þessum skóm þá er það þeirra val og engin ástæða að rökræða það, fólk hefur fullan rétt á því að hafa sitt álit á því hvaða skór eru þægilegir. Síðan í ákveðnum tilfellum, t.d. með stífa stóru tá, er þægilegt að vera í skóm sem eru mikið ávalir og létta göngu.

Lokaniðurstaða: Þetta er enn eitt peningarplokkið þar sem verið er að selja okkur heilsu á fölskum forsendum. Fyrir peninginn sem þessir skór kosta er hægt að kaupa nánast árskort í líkamsrækt sem ég skal lofa þér að virkar hundrað sinnum betur en þessi skór til að grenna og stæla vöðva.

Hægt er að nálgast rannsóknina frá vefsíðu ACE til að skoða niðurstöðurnar með því að smella hér. Þar eru niðurstöðurnar settar fram á einfaldan og myndrænan máta.