Kæling eða hiti?

Kælipokar og hitapokar eru meðal algengustu ráða sem fólk notar til að létta á þrálátum sársauka eða strax eftir slys. Þrátt fyrir að notkun þeirra sé algeng ríkir almennt óvissa hvernig er best að beita þessu ráði. Hvenær á að nota hita og hvenær á að nota kælingu?

Kæling

Algengast er að nota kælingu þegar um bráðameiðsl er að ræða (innan 48 tíma frá slysi) og bólgur. Kælipokar hafa reynst vel við að ná niður bólgum staðbundið. Gott dæmi er að leggja kælipoka reglulega um ökkla fyrstu 48 tímana eftir að hafa snúið sig á honum. Að halda niðri bólgumyndun getur hjálpað að minnka sársauka.

Einnig er hægt að nota kælipoka við krónísk vandamál. Dæmi um það er íþróttmeiðsl sem bólgnar síendurtekið eftir íþróttaiðkun. Kæla skal EFTIR æfingu en alls ekki FYRIR. Kæling fyrir æfingu getur gert vöðva, sinar og liðbönd stíf sem eykur hættuna á slitum þar sem teygjanleiki þessara vefja minnkar við kælingu og er þarafleiðandi ekki eins vel í stakk búin fyrir átökin.

Hiti

Hitapokar henta vel fyrir krónískar “vöðvabólgur”. Hitinn slakar á vöðvum og eykur blóðflæði sem skolar út úrgangsefni og sér vefjunum fyrir fersku blóði. Dæmi um það eru herðavöðvabólgur. Einnig er viðeigandi í flestum tilvikum að nota hitapoka fyrir átök sem vitað er að mun koma á stað krónískum meiðslum. Sjaldnast er viðeigandi að nota hita EFTIR átök þar sem oft er um bólguferli að ræða.

Kæling eða Hiti?
  Kæling Hiti
Hvenær Eftir slys eða eftir átök sem koma á stað krónískum meiðslum. Notist fyrir átök sem koma á stað krónískum meiðslum og á “vöðvabólgu”
Hvernig Leggið kælipoka á svæði. Passið að ofkæla ekki, notið jafnvel viskustykki á milli kælipoka og húðar. Leggið hitapoka á svæði. Varist að hafa hitapoka of heitann.
Hve lengi Ekki meira en 20 mínútur Ekki meira en 20 mínútur

Í tilvikum þar sem um er að ræða krónísk vandamál getur verið áhrifaríkara að nota víxlmeðferð þar sem svæði er kælt í nokkrar mínútur og svo hitað í nokkrar mínútur. Víxlað er á milli hita og kulda 2-4 sinnum. Þessi aðferð skolar úrgangsefni mun hraðar en hiti eingöngu. Þessi aðferð er einnig mjög áhrifarík fyrir slæmar vöðvaharðsperrur.

Að lokum er viðeigandi að minnast orða Andrew Taylor Still, upphafsmanns osteópatíu, sem sagði að ef það er kalt (vöðvabólgur) þá skal hita það og ef það er heitt (bólguferli) á að kæla það. Svo “einfalt” er það.