Engiferadrykkur - grunnuppskrift

Uppruni uppskriftar
Halli Magg
Uppskrift umsögn

Rót engiferplöntunnar (Zingiber officinale) hefur verið notað í mörg þúsund ár í náttúrulækningum fyrir ástönd eins og magakveisur, kvefi, inflúensu, hjálpa meltingu, niðurgang, ógleði og ýmsa bólgusjúkdóma. Drykkurinn hentar vel íþróttafólki til að verjast bólgum.

Rannsóknir hafa sýnt að engifer hefur góða virkni gegn ógleði tengdri ferðaveiki (bíl eða sjó), meðgöngu eða krabbameinsmeðferð og einnig hafa rannsóknir sýnt að virku efnin í engiferi hafa svipaða virkni og mörg bólgueyðandi lyf sem útskýrir hversu vel það virkar fyrir bólgur.

Hægt er að lesa sig til um engifer hér.

Hér verður farið yfir nokkur grunnatriði við að búa til engiferadrykk.

Uppskrift innihald

Í grunninn þarf u.þ.b. 100 grömm eða 5 sentimetra af afhýddu engiferi í 1 lítra af vatni. Notið meira eða minna til að fá styrkleika sem hentar þínum smekk.

Þar næst er hægt að nota margvísleg önnur innihaldsefni til að bragðbæta hann eða til að hafa áhrif á virkni hans gegn ýmsum vandamálum.

Algengt er að nota hunang, agave, hrásykur, rapadura eða epli til að sæta engiferadrykkinn og sítrónu, lime, cayenne pipar, hvítlauk, flest ber (t.d. bláber, krækiber, gojiber) og myntulauf til að bragðbæta hann eða breyta virkni hans.

Mundu að það er engin sérstök ástæða að sæta þennan drykk og að venjulegur hrásykur er ekki mikið frábrugðin venjulegum sykri og allir vita að sykur telst ekki góður fyrir okkur og vinnur á móti heilsusamlegum áhrifum drykksins. Rapadura sykur er næringamesti sykur sem völ er á, en gefur skrítið bragð í engiferadrykkinn (sem er mitt álit, auðvitað er þetta smekksatriði). Epli gefur mjög milt og gott sætt bragð í drykkinn.

Uppskrift aðferð
  1. Afhýðið engiferarót og skerið í smærri bita. Skerið annað innihaldsefni einnig í smærri hluta. Hægt er að mauka allt innihaldið í smá af vatni með töfrasprota eða í blandara, þetta er ekki nauðsynlegt en gefur möguleikann á að hafa smá matargrugg í drykknum fyrir þá sem vilja það.
  2. Setjið allt innihaldið í ca. 45-50 gráðu heitt vatn og látið liggja þar yfir nótt eða dag. Heilsusíðan mælir eindregið á móti því að sjóða innihaldsefnin þar sem mörg virk efni eru viðkvæm fyrir miklum hita, sama gildir fyrir að örbylgja drykkinn. Til dæmis er hugmyndafræðin á bakvið hráfæði að hita ekki mat upp fyrir 47°C til að skaða ekki virk efni (t.d. vítamín og ensím).
  3. Í lokin setur þú drykkin í ílát og geymir hann í ísskáp í allt að 3 daga. Þú hefur 3 valmöguleika hvernig þú getur haft drykkinn. Þú getur síjað hann í gegnum klút til að hafa hann tæran. Ef þú maukaðir innihaldið getur þú helt drykknum í gegnum sigti til að hafa drykkinn smá gruggugann (mitt uppáhald) eða einfaldlega drukkið drykkinn með öllu innihaldinu maukuðu.

Drekktu eitt til þrjú glös á dag.

Flokkun uppskriftir