Framhryggjarfillet með grilluðum tómötum

Uppruni uppskriftar
lambakjöt.is
Uppskrift umsögn

Þykkur og vel fitusprengdur framhryggjarvöðvi (fillet) hentar sérlega vel til grillsteikingar. Gott er að leggja hann nokkra stund í kryddlög úr olíu, sítrónusafa og kryddjurtum eins og hér er gert og grilla hann síðan hæfilega lítið. Grillaðir tómathelmingar eru mjög góðir með en einnig mætti grilla annað grænmeti, svo sem eggaldin, papriku og kúrbít.

Uppskrift innihald

800 g lambaframhryggjarvöðvi (prime rib)
4 msk ólífuolía
Rifinn börkur og safi af 0.25 sítrónu
2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
1 msk ferskt rósmarín, saxað
1 msk fersk minta, söxuð, eða 1 tsk þurrkuð
1 tsk óreganó, þurrkað
0.5 tsk kummin
Nýmalaður pipar, gjarna regnbogapipar
Salt
8 tómatar, vel þroskaðir
1 poki góð salatblanda, t.d. baby leaf eða klettasalatsblanda
2 msk basilíkuolía eða önnur góð bragðbætt olía

Uppskrift aðferð

Kjötið skorið í 4 álíka stóra bita. Olía, sítrónusafi og börkur, hvítlaukur, kryddjurtir, kummin og pipar sett í skál og hrært vel saman. Kjötinu velt upp úr blöndunni og látið standa í 1 klst við stofuhita. Snúið nokkrum sinnum.
Grillið hitað. Kjötið saltað, sett á grillið og grillað við nokkuð góðan hita í um 4 mínútur á hvorri hlið, eða eftir smekk; snúið 2-4 sinnum. Þegar búið er að taka það úr kryddleginum eru tómatarnir skornir í helminga, skurðfletirnir penslaðir með kryddleginum og saltaðir og tómötunum er svo raðað á grillið við hlið kjötbitanna með skurðflötinn upp. Grillaðir þar til þeir eru meyrir og vel brúnir á botninum og þá er þeim snúið og skurðflöturinn grillaður í um 2 mínútur.
Salatblandan sett á fat, olíunni ýrt yfir, kryddað með pipar og salti og blandað vel.
Kjötið sett í miðjuna og tómötunum raðað í kring.

Skammtar
4