Franskur lambapottréttur

Uppruni uppskriftar
lambakjöt.is
Uppskrift umsögn

Franskur sveitamatur af bestu gerð - lambakjöt, grænmeti, rauðvín og kryddjurtir. Best er að elda réttinn í potti sem stungið er í ofninn en einnig má sjóða hann uppi á eldavélinni.

Uppskrift innihald

1 kg lambaframhryggjarsneiðar
Nýmalaður pipar
Salt
4 msk olía
2 laukar, saxaðir
1-2 gulrætur, skornar í litla bita
1 blaðlaukur, skorinn í sneiðar
2 msk tómatþykkni (paste)
300 ml þurrt rauðvín
0.5 lítri soð (eða vatn og kjötkraftur)
2 tsk dijonsinnep
1-2 lárviðarlauf
1 tsk timjan, þurrkað
1/2 tsk oregano, þurrkað

Uppskrift aðferð

Ofninn hitaður í 160°C.
Kjötið e.t.v. skorið í minni bita, þeir þerraðir með eldhúspappír og kryddaðir með pipar og salti.
Olían hituð í þykkbotna potti og kjötið brúnað við góðan hita – betra að brúna það í 2-3 skömmtum en setja of mikið í pottinn. Tekið upp og sett á disk.
Grænmetið sett í pottinn og látið krauma við meðalhita þar til það er farið að brúnast ögn.
Þá er tómatþykkninu hrært saman við ásamt helmingnum af víninu, hitinn hækkaður og látið bullsjóða þar til mestallt vínið er gufað upp. Afganginum af víninu hellt út í og látið sjóða áfram þar til það er nærri allt gufað upp. Þá er soði, sinnepi og kryddjurtum hrært saman við, kjötið sett aftur í pottinn, lok sett á hann og hann settur í ofninn í um 1 ½ klst. Þá er kjötið tekið upp úr, sett á fat og haldið heitu, en soðið síað yfir í annan pott, hitað að suðu og látið sjóða rösklega þar til það er farið að þykkna ögn.
Smakkað til með pipar og salti, hellt yfir kjötið og borið fram, t.d. með soðnu eða gufusoðnu grænmeti.

Skammtar
4