Lambaskankar eða leggir eru ódýr en góður biti sem best er að elda lengi við fremur vægan hita. Hér eru þeir gljáðir með barbecuesósu, bragðbættri m.a. með hvítlauk og kryddjurtum.
4 lambaskankar
6 msk barbecuesósa, t.d. Hunts Honey-Mustard
1 msk worcestersósa
1 msk sojasósa (Heilsusíðan mælir með Tamarisósu)
2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
1 msk ítölsk kryddjurtablanda
Nýmalaður pipar
1-2 msk olía
Lambaskankarnir e.t.v. fitusnyrtir og settir í skál.
Allt hitt hrært saman í skál og síðan hellt yfir skankana.
Plast breitt yfir og látið standa í kæli í nokkra klukkutíma og gjarna yfir nótt; snúið öðru hverju.
Ofninn er svo hitaður í 170 gráður.
Skankarnir teknir úr leginum og settir í eldfast fat sem penslað hefur verið með olíu. Álpappír breiddur yfir og skankarnir bakaðir í um 1 klst en þá er álpappírinn fjarlægður og skankarnir penslaðir með leginum og bakaðir í 30-45 mínútur í viðbót, eða þar til þeir eru mjög meyrir; penslaðir öðru hverju.