Grillað lambakjötssalat

Uppruni uppskriftar
lambakjot.is
Uppskrift umsögn

Ljúffengt, heitt eða volgt lambakjötssalat, sett saman undir áhrifum úr ýmsum áttum. Best er að nota hryggvöðva (file) í salatið en einnig mætti nota t.d. innralærvöðva og grilla hann þá heldur lengur.

Uppskrift innihald

600 g lambahryggvöðvi
1 msk 1001 nótt lambakrydd frá Pottagöldrum
Nýmalaður pipar
Salt
1 meðalstór sæt kartafla
2 msk ólífuolía
250 g blönduð salatblöð
1 rauðlaukur, skorinn í þunnar sneiðar
1/2 agúrka, skorin í litla bita
200 ml hreint skyr
1 hvítlauksgeiri, saxaður smátt
2-3 msk fersk mintulauf, söxuð

Uppskrift aðferð

Kjötið kryddað með lambakryddblöndu, pipar og salti.
Grillið hitað og ofninn hitaður í 200 gráður.
Sæta kartaflan afhýdd og skorin í teninga, um 1 cm á kant. Þeim er svo raðað á álpappírsklædda bökunarplötu, kryddað með ögn af pipar og salti og olíunni ýrt yfir. Sett í ofninn og bakað í um 10 mínútur, eða þar til kartöflurnar eru orðnar meyrar og farnar að taka lit. Á meðan er kjötið grillað við góðan hita í 3-5 mínútur á hvorri hlið, eftir smekk. Látið standa í nokkrar mínútur. Salatblöðum, rauðlauk og gúrkubitum blandað saman á fati. Skyr, hvítlaukur og minta hrært saman og kryddað með pipar og salti. Hellt yfir salatið og blandað. Kjötið skorið í þunnar sneiðar og dreift yfir salatið ásamt kartöfluteningunum.

Skammtar
4-6