Grillað lambalæri

Uppruni uppskriftar
lambakjot.is
Uppskrift umsögn

Að grilla við óbeinan hita þýðir að það eru engir kola- eða gaslogar beint fyrir neðan kjötið og það er því ekki hætta á að það brenni. Þetta er mjög hentug aðferð fyrir öll stærri kjötstykki.

Uppskrift innihald

1 lambalæri, um <2.2 kg, helst nokkuð vel hangið
6-8 hvítlauksgeirar
2 tsk. þurrkað timjan
1 tsk. þurrkað oregano
2 tsk. paprikuduft
Rifinn börkur af einni sítrónu
Nýmalaður pipar og salt

Uppskrift aðferð

Kveikið á grillinu og hitið það vel. Fitusnyrtið lærið e.t.v. dálítið, gerið djúpar raufar í það á nokkrum stöðum með hnífsoddi og stingið hvítlauksgeirum inn í það.
Blandið saman timjani, oregano, paprikudufti, sítrónuberki, pipar og salti og núið vel á allt lærið.
Slökkvið á öðrum brennaranum á gasgrilli (ef notað er kolagrill eru kolin færð út til hliðanna og álbakki hafður í miðjunni).
Setjið lærið á grillið þar sem ekki er eldur undir og lokið síðan. Grillið lærið í 1 klst og 10 til 30 mínútur eftir stærð og eftir því hve mikið það á að vera grillað (notið kjöthitamæli ef þið eruð ekki viss). Snúið lærinu tvisvar eða þrisvar en opnið grillið annars sem allra minnst.
Ef óskað er eftir dekkri skorpu má færa það yfir eldinn seinustu mínúturnar og fylgjast þá vel með því. Best er að það fái að standa í 25-30 mínútur eftir að það er tekið af grillinu.

Skammtar
4