Það er dálítið indverskur keimur af þessum kótelettum, þar sem þær eru marineraðar í karríkryddaðri jógúrt áður en þær eru grillaðar.
Svo má líka nota meira karrí í kryddlöginn ef þess er óskað.
12-16 lambakótelettur, gjarnan fitusnyrtar
1/2 dós hrein jógúrt
1/4 laukur
2 hvítlauksgeirar
2 tsk karríduft
Cayennepipar á hnífsoddi
Salt
Kóteletturnar settar í eldfast fat. Allt hitt nema saltið þeytt saman í matvinnsluvél eða blandara (einnig má saxa laukinn og hvítlaukinn smátt og hræra saman við jógúrtina og kryddið) og hellt yfir. Plast breitt yfir og látið standa í kæli í a.m.k. 6 klst, eða í allt að tvo sólarhringa; snúið öðru hverju.
Síðan er grillið hitað. Kóteletturnar teknar úr leginum og hann skafinn vel af þeim. Saltaðar og síðan grillaðar við góðan hita í 3-5 mínútur á hvorri hlið, eða eftir smekk.
Bornar fram t.d. með soðnum hrísgrjónum og tómatsalati, og e.t.v. sítrónu-jógúrtsósu.