Grillaðar lambaframhryggjarsneiðar

Uppruni uppskriftar
lambakjot.is
Uppskrift umsögn

Lambaframhryggur er góður biti og vel fitusprengdur, þannig að kjötinu hættir síður við að þorna en ýmsum öðrum bitum, ekki síst ef sneiðarnar eru þykkt sagaðar. Þá er gott að gefa þeim langan tíma á grillinu við fremur vægan hita.

Uppskrift innihald

1 kg lambaframhryggur, þykkar sneiðar
1 sítróna
3 msk ólífuolía
4 hvítlauksgeirar
1/2 tsk þurrkuð minta
Nýmalaður pipar
Salt

Uppskrift aðferð

Kjötinu skipt í 2-3 bita hver sneið og það e.t.v. fitusnyrt svolítið en best er að skilja sem mest af fitunni eftir (það er betra að skera hana af þegar búið er að grilla ef ástæða er til).

Börkurinn rifinn af sítrónunni og safinn kreistur úr henni. Sett í eldfast fat ásamt olíu, smátt söxuðum hvítlauk, mintu, nokkuð miklum pipar og svolitlu salti. Hrært vel saman. Kjötinu velt upp úr blöndunni og látið liggja í 1 klst (við stofuhita; ef það liggur lengur þarf það að vera í ísskáp).

Grillið hitað vel og svo er kjötið saltað svolítið meira og sett á það öðrum megin, slökkt á brennaranum þeim megin (ef notað er kolagrill er kolunum ýtt til hliðar og álbakki settur undir kjötið) og svo er grillinu lokað og kjötið grillað í u.þ.b. 25 mínútur (fer annars eftir þykkt bitanna, vindkælingu o.fl.). Snúið einu sinni. Svo má færa það yfir eldinn í smástund til að fá meiri lit á það ef ástæða er til. Látið bíða í nokkrar mínútur áður en það er borið fram.

Skammtar
4