Kótelettur eru alltaf vinsælar á grillið og það er gott að láta þær liggja í kryddlegi drjúga stund áður en þær eru grillaðar.
Afganginn af kryddleginum má svo nota út í sósu á kóteletturnar, eins og hér er gert.
12-16 lambakótelettur
3 msk balsamedik
3 msk hvítlauksolía (eða ólífuolía og 2 saxaðir hvítlauksgeirar)
Nokkur basilíkublöð, söxuð
Nokkur mintulauf, söxuð, eða 1/2 tsk þurrkuð minta
1/2 tsk oregano, þurrkað
Nýmalaður pipar
Salt
150 ml hvítvín
Svolítið hunang eða sykur
1 tsk maísmjöl
Kóteletturnar þerraðar og e.t.v. fituhreinsaðar að einhverju leyti. Balsamedik, olía, kryddjurtir og pipar hrært saman í skál. Kótelettunum velt upp úr leginum og þær látnar standa við stofuhita í hálftíma, eða í kæli í allt að 6 klst. Snúið öðru hverju.
Útigrill eða grillið í ofninum hitað. Kóteletturnar teknar úr leginum (en hann geymdur), raðað á grind og þær saltaðar og grillaðar í 4-6 mínútur á hvorri hlið.
Á meðan er afgangurinn af leginum settur í pott ásamt hvítvíni, hitað að suðu og látið sjóða rösklega í nokkrar mínútur. Smakkað til með hunangi eða sykri, pipar og salti, og síðan er maísmjölið hrært út í svolitlu köldu vatni og hrært út í til að þykkja sósuna ögn.
Kóteletturnar bornar fram með sósunni, ásamt t.d. soðnum hrísgrjónum eða steiktu grænmeti.