Transfitubann í þágu almennings

Undanfarna daga hefur farið mikið fyrir umræðu um transfitur og hvort eigi að banna þær. Heilsusíðan fagnar þessari umræðu og styður algjört bann við transfitum enda væri það almenningi sannarlega til góða að öllu leiti. En vonandi fara þeir ekki sömu sorglegu leiðina í þessu banni og Bandaríkin fóru.

Hvað er transfita og af hverju er verið að búa hana til?

Í þeim tilgangi að losa þig undan fræðilegri langloku ætla ég að segja að transfita er fita sem myndast þegar ómettaðar fitur (lesist sem jurta- og fræolíur og mun verða einungis kallaðar jurtaolíur hér eftir) eru hertar að hluta. Fituherðing er þegar olía er hituð upp við mikinn hita þannig að í henni verður efnafræðileg breyting (cis tvítengi verða að trans tvítengjum) sem veldur því að olían helst hörð við stofuhita. Vandamálið að nota jurtaolíur í unnum matvælum er að hún þránar hratt og hún er fljótandi sem takmarkar notkunargildi hennar í t.d. kexi, saltstöngum og sósudufti þar sem það þarf að vera þurrt og haldast vel saman. En með því að fituherða jurtaolíur verða þær harðar og henta því betur í matvælaiðnaði.

Fyrir matariðnaðinn hefur þetta nokkra kosti í för með sér. Þeir eru að minnka notkun á mettaðri fitu og kólesteróli (m.ö.o. dýrafitu og kókosfitu) sem almenningur er orðin þrautþjálfaður í að hræðast eins og pláguna og þeir auka notkun á jurtaolíum sem næringarfræðingar hafa hvatt almenning í að nota seinustu nokkra áratugi. Og síðan er stóri bónusinn fyrir þá er að þessi unna fita er ódýr fyrir matvælaframleiðendur.

Taka skal sérstaklega fram að það er algengur misskilningur að transfita sé eitthvað tengd mettaðri fitu, þ.e. dýrafitu eða að transfita sé slæm eins og dýrafita. Þetta stafar af því að transfita er HERT fita en dýrafita er almennt kölluð HÖRÐ fita. Þetta gerir þessa fitur ekki að sama hlutnum, dýrafita er hörð við stofuhita frá náttúrunnar hendi á meðan jurtaolía er hert til að verða hörð við stofuhita. Þrátt fyrir það að þær séu nú báðar harðar fitur, þ.e. harðar við stofuhita, þá er þetta ekki engan veginn sami hluturinn þó að þær hafa nú sama notagildi.

Önnur ástæða sem ég tel vera fyrir þessum ruglingi er sú að í a.m.k. öllum þeim tilfellum sem ég hef hlustað á fyrirlestur eða lesið grein frá næringafræðingum varðandi transfitur þá þurfa þeir af einhverri ástæðu að minnast á harðar dýrafitur í sömu setningu eða málsgrein og tengja því óhróður transfita við mettaða fitu. Dæmi um þetta er hægt að finna hér inn á vefsíðu Lýðheilsustöðvar.

Sannleikurinn er sá að transfitur koma mettuðum fitum eða dýrafitum ekki við. Næringafræðingar ættu frekar að benda á hið rétta í þessu máli að þetta vandamál með transfitur er nátengt neyslu á jurtaolíum og unnum matvörum. En það er deild sem næringafræðingar tala almennt ekki á móti heldur eru þeir fastir í gírnum að tala um ókosti dýrafitu öllum stundum, þrátt fyrir að hún hafi margvíslega kosti fyrir starfsemi líkama okkar. Í þeim fyrirlestrum sem ég hef haldið um fitur hef ég lagt áherslu á kosti og galla hverjar fitu fyrir sig frekar en að einskorða mig við þennan “dýrafita slæm, jurtafita góð” hugsunarhátt sem er svo mikil einföldum á þessu málefni að hún er einfaldlega röng.

Eru transfitur einungis manngerðar?

Transfitur koma ekki einungis frá fituherslu heldur er einnig til náttúrulegt afbrigði af transfitum. Þessar náttúrulegu transfitur myndast í jórturdýrum (t.d. kindum og beljum) og verða þær hluti af fitu dýrana sem við síðan borðum í kjöti, mjólk og mjólkurafurðum þessara dýra.

Hún Sirrý vinkona mín hjá Yggdrasil hringdi í Lýðheilsustöð til að fá álit þeirrar stofnunar á náttúrulegu transfitunni þar sem Yggdrasill selur lífrænar mjólkurvörur sem innihalda náttúrulega transfitu. Svarið sem hún fékk var að náttúrulega transfitan væri jafn slæm og manngerða transfitan. Síðan hafði Sirrý samband við mig til að fá mitt álit á náttúrulegum transfitum og mitt álit er að svar Lýðheilsustofnunar er að öllu leyti rangt, sem ég mun rökstyðja hér að neðan. Ég er satt best að segja ekki hissa á svari þeirra þar sem áróður hefðbundinna næringarstofnanna gegn dýrafitu er svo fastmótaður að ég efast að ég mun heyra í náinni framtíð frá þeim nokkuð jákvætt um dýrafitu, eins og að transfitan í henni sé betri valkostur en transfitan sem kemur frá jurtaolíunum. Eða með öðrum orðum, það er einungis hægt að keyra bíl sem er fastur í bakgír afturábak.

Náttúrulegar transfitur – góðar eða slæmar?

Til er fjöldi rannsókna og samantektir á rannsóknum sem segja það svart á hvítu að transfita frá jórturdýrum hefur ekki þau skaðlegu áhrif á hjarta- og æðakerfi sem manngerðar transfitur sannarlega hafa og ekki nóg með það að þær eru ekki skaðlegar heldur eru rannsóknir að gefa til kynna að þær hafi jákvæð áhrif á hjarta- og æðakerfi (sjá heimildir). Þetta er enn eitt dæmið um hversu mikil mistök það er þegar við maðurinn reynum að breyta náttúrunni okkur í hag. Í flestum tilvikum fáum við það margfalt verra til baka. Annað gott dæmi um það eru genabreytingar sem hefur fjölda ókosta í för með sér og flest það sem átti að vera gott við þær hefur ekki staðist.

Vonandi munu þessi nýju lög sem eiga að banna transfitur taka mið af þessu og taka það skýrt fram að þau ná einungis yfir manngerðar transfitusýrur. Í Evrópu hafa stofnanir gert greinarmun á þessum tveimur transfitusýrum á meðan Matvæla og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) gerir engan greinarmun á þeim. Í kjölfarið þarf að merkja transfitur sem koma frá jórturdýrum til jafns við þær sem koma frá fituherslu. Afleiðingarnar af þessu er t.d. að kaffihúsakeðjan Starbucks notar ekki smjör í bökunarvörum þar sem þeir vilja ekki þurfa merkja vörurnar sýnar með “inniheldur X mikið af transfitum” sem myndi hafa áhrif á sölu. Þarna er saklausar, náttúrulegar transfitur hengdar fyrir manngerðar transfitur. En augljóslega hefur merking á náttúrulegum transfitum ekkert varnargildi þar sem þær hafa ekki skaðleg áhrif á heilbrigði okkar og ef eitthvað þá er hún góð fyrir okkur. Það að gera ekki greinarmun á þessum transfitum er gróft dæmi um þekkingarleysi eða einstefnu áróður gegn dýrafitu.

Önnur mistök sem þeir gerðu í Bandaríkjunum er að það þarf ekki að tilgreina transfitu ef hún er undir hálfu grammi á skammtastærð (þeir miða við skammtastærðir í Bandaríkjunum en ekki 100 grömm eins og Evrópa). Með þessu móti geta matvælaframleiðandur hagrætt skammtastærðum til að geta tilgreint “0% transfita” á meðan í raunveruleikanum getur neytandinn fengið fáein grömm af transfitu með því að borða vöruna. Gott dæmi um svona svindl er að utan á sumum úðabrúsum með jurtaolíu stendur “fat free” eða á íslensku “engin fita”. Hvernig stendur á því að brúsi sem inniheldur ekkert nema fitu (olía er fita) getur skrifað svona staðhæfingu? Með því að tilgreina að skammtastærðin sé einn þriðji úr sekúndu og fitumagnið í þeim skammt er svo lítið að það þarf ekki að tilgreina það, abrakadabra, og þú hefur fitulausa fitu. Við vitum öll að þegar hin almenni Jón eða Jóna notar svona úðabrúsa til að setja olíu á steikingarpönnuna þá er úðað í nokkrar sekúndur til að ná viðeigandi olíuhúð á pönnuna.

Heilsusíðan mælir með

Mitt álit á hvernig þessi löggjöf sem bannar transfitu á að líta út er að hún skuli miðast 100% við hagsmuni almennings en ekki matvælaframleiðenda. Hún þyrfti að banna transfitu 100% því ekkert magn af transfitu er heilsusamlegt fyrir okkur, það yrði engar gloppur í reglugerðinni þar sem matvælaframleiðendur gætu sagt 0gr. transfita en varan myndi samt innihalda transfitu og að lokum þyrfti ekki að tilgreina náttúrulega transfitu. Þannig yrði hagsmunum almennings best gætt og það á ávallt að vera markmiðið.

Heimildir

Do ruminant trans fatty acids impact coronary heart disease risk?

Commentary: Ruminant trans fatty acids and coronary heart disease—cause for concern?

Trans-11 vaccenic acid dietary supplementation induces hypolipidemic effects in JCR:LA-cp rats.

Increased hypolipidemic benefits of cis-9, trans-11 conjugated linoleic acid in combination with trans-11 vaccenic acid in a rodent model of the metabolic syndrome, the JCR:LA-cp rat.

WHO Scientific Update on trans fatty acids: summary and conclusions

Interesterification

Natural Trans Fats Have Health Benefits, New Study Shows

A 'Good' Trans Fat?