Enn ein lyfjavæðingarannsóknin var að koma í gegn og er niðurstaða hennar að meira en 900 þúsund Danir taka ekki þau kólesteróllyf sem þeir hafa þörf fyrir og að það kosti um 30 þúsund manns lífið á hverjum tíu árum.
Auðvitað er þetta lyfjavæðing í sinni hreinustu mynd. En ef þessir vísindamenn væru sannir vísindamenn og hefðu hag almennings fyrir brjósti þá myndu þeir ekki setja allt þetta fólk á kólesteróllyf, heldur myndu þeir ráðleggja þeim að nota omega 3 fitusýrur.
Samantektarrannsókn sem náði yfir 97 rannsóknir og tæplega 300 þúsund manns þar sem skoðað var minnkun á dánartíðni sökum kransæðarsjúkdóma og öllum orsökum með notkun á kólesteróllyfjum (statínlyfjum) og omega 3 fitusýrum sýndi að omega 3 fitusýrurnar voru mun öflugari að minnka dánartíðni heldur er kólesteróllyf.
Minnkun á dánartíðni af öllum orsökum var 13% hjá statínlyfjum en 23% hjá omega 3 fitusýrum. Minnkun á dánartíðni vegna hjartasjúkdóma minnkaði um 22% hjá statínlyfjum en 32% hjá omega 3 fitusýrum. Þetta þýðir að omega 3 fitusýrur eru nálægt HELMINGI öflugri að minnka dánartíðni en kólesteróllyf. Það er ekkert smá munur.
Það merkilega við þessa rannsókn er að meðaltalslækkun á kólesteróli hjá statínlyfjum var 20% (7-36%) en 2% (-2 til 9%) hjá omega 3 fitusýrum, sem er enn ein sönnunin að kólesterólkenningin sé röng.
Hvernig getur þessi læknir sem framkvæmdi rannsóknina talið sig vera mann vísinda ef hann mælir með kólesterólyfjum þegar heildarniðurstöður rannsókna sýnir að omega 3 fitusýrur séu mun öflugri til að lækka dánartíðni, bæði af öllum orsökum og kransæðasjúkdómum? Hvaða hag ber þessi læknir fyrir brjósti? Augljóslega ekki almennings og fjárhag heilbrigðiskerfisins. Það væri gaman að vita hver kostaði þessa rannsókn og fyrir hvern þessi læknir er búinn að vinna fyrir í fortíðinni.
Þeir sem fylgjast með rannsóknum á sviði hjartasjúkdóma sjá það að kólesterólkenningin á ekki lengi eftir ólifað. Nú birtast reglulega rannsóknir sem sýna að einmitt þetta lýðheilsumataræði sem hefur verið ýtt að okkur í gegnum tíðina sem leggur áherslu á jurtaolíur (omega 6 fitusýrur) og kolvetni (sem við tökum aðalega inn sem einföld kolvetni) er einn af stærri næringaráhættuþáttum hjartasjúkdóma. Fyrir þá sem hafa áhuga góðri samantekt sem sýnir stöðu mála í dag á þessu sviði þá mæli ég með að lesa samantektargrein sem birtist í september 2011 í hollenska læknatímaritinu sem er hægt að nálgast með því að smella hér.
Heimildir:
Fréttablaðið (bls.2). 19. Apríl. 2012.
Effect of different antilipidemic agents and diets on mortality: a systematic review. Studer M, Briel M, Leimenstoll B, Glass TR, Bucher HC. Arch Intern Med. 2005 Apr 11;165(7):725-30.
Saturated fat, carbohydrates and cardiovascular disease. Kuipers RS, de Graaf DJ, Luxwolda MF, Muskiet MH, Dijck-Brouwer DA, Muskiet FA. The Netherlands journal of medicine. 2011 Sep;69(9):372-8.