Meyr og gómsætur lambavöðvi, gljáður með appelsínumarmelaði og bakaður í súr-sætri appelsínu-balsamedikssósu. Uppskriftin er ættuð frá Ástralíu. Í staðinn fyrir lambavöðva mætti vel nota kindainnralæri, það er ekki síðra.
1 kg lambainnralærvöðvi (3 bitar)
2 appelsínur, stórar
1 dl appelsínumarmelaði
2 msk. balsamedik
1 msk. hunang
1 msk. sojasósa (Heilsusíðan mælir með Tamarisósu)
2-3 hvítlauksgeirar
1tsk. paprikuduft
Nýmalaður pipar
Salt
Setjið kjötið í skál. Kreistið safann úr annarri appelsínunni og hrærið honum saman við marmelaði, balsamedik, hunang og sojasósu (tamarisósu). Saxið hvítlaukinn smátt og blandið honum saman við ásamt paprikudufti og pipar. Hellið leginum yfir kjötið og veltið því upp úr honum. Látið standa í kæli í nokkrar klukkustundir og snúið kjötbitunum öðru hverju.
Hitið ofninn í 200°C. Takið kjötbitana úr leginum, saltið þá og raðið þeim í eldfast fat. Skerið eina appelsínu í 12 báta og raðið þeim í kring. Hellið appelsínuleginum yfir. Setjið í ofninn og steikið í um hálftíma, eða þar til kjarnhitinn í kjötinu er 55-65°C, eftir því hversu mikið steikt það á að vera. Ausið leginum yfir það tvisvar eða þrisvar og snúið e.t.v. appelsínubátunum.
Leggið kjötið á bretti, breiðið álpappír lauslega yfir og látið standa í nokkrar mínútur, áður en það er skorið í sneiðar og borið fram ásamt appelsínusósunni og appelsínunum.